Okkar Kópavogur: Aukið íbúalýðræði í Kópavogi

okkarkopavogur_myndOkkar Kópavogur er nýtt verkefni hjá Kópavogsbæ  sem hleypt er af stokkunum í dag. Með því er verið að efla íbúalýðræði í bænum og auka samráð íbúa og bæjaryfirvalda.

200 milljónum króna verður varið til framkvæmda á hugmyndum sem einstaklingar geta komið á framfæri frá og með deginum í dag og út maí. Kópavogsbúar velja svo á milli hugmynda í haust. Framkvæmd verkefna  hefst í haust og lýkur 2017 en verkefnið er hugsað til tveggja ára.

Hægt er að koma hugmyndum á framfæri í gegnum síðuna www.kopavogur.is/okkarkopavogur eða með því að leggja þær til á íbúafundum sem haldnir verður í bænum 18.-26. maí. 

„Við vitum að Kópavogsbúar luma á fjölmörgum góðum hugmyndum og vonumst til að þeir taki sem flestir þátt í verkefninu. Ég hvet íbúa sérstaklega til að mæta á íbúafundi sem haldnir eru í tengslum við verkefnið. Þar er kjörinn vettvangur til að koma hugmyndum á framfæri og ræða hvernig gera má bæinn enn betri,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.

Verkefnið er hluti af aukinni lýðræðisvæðingu hjá Kópavogsbæ, kallað hefur verið eftir þátttöku íbúa í verkefnum á borð við gerð lýðheilsustefnu og hverfisáætlana.

„Það er mikil lýðræðisvakning í samfélaginu og við hjá Kópavogsbæ erum að bregðast við því með því að virkja íbúa til þátttöku í margvíslegum verkefnum. Okkar Kópavogur er dæmi um það, hér er íbúum boðið að koma með hugmyndir að verkefnum og forgangsraða þeim,“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs.

Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast hér:  www.kopavogur.is/okkarkopavogur

Nánar um Okkar Kópavog:

Verkefnið Okkar Kópavogur skiptist í þrjá hluta: Hugmynd – Kosning – Framkvæmd

1.    Hugmynd

Fyrsti hlutinn snýst um að setja inn hugmyndir að verkefnum og stendur hann yfir frá 11. til 31.maí. Bæði er hægt að setja inn hugmyndir í gegnum vef verkefnisins www.kopavogur.is/okkarkopavogur eða á íbúafundum.

Hugmyndir geta verið af margvíslegum toga, leiktæki, bekkir, hjólastæði, gróður og fleira. Nánari skilyrði er að finna á vef verkefnisins. 

Allt að 10 hugmyndir af hverjum íbúafundi verða setta í kosningu í haust. Íbúar eru hvattir til að mæta á fundi í sínu hverfi og  koma hugmyndum sínum á framfæri.

Haldnir verða 5 íbúafundir í Kópavogi á næstu dögum, í Vatnsendaskóla 18. maí fyrir íbúa í Hvörfum, Kórum og Þingum. 19. maí verður íbúafundur í Salaskóla fyrir íbúa í Sölum og Lindum. Þann 23. maí verður fundur í Smáraskóla fyrir íbúa í Smárahverfi, þann 25. maí í Álfhólsskóla, Hjalla, fyrir íbúa sem tilheyra skólahverfum Kópavogsskóla, Álfhólsskóla og Snælandsskóla og loks í Kársnesskóla fyrir íbúa í Vesturbæ Kópavogs þann 26. maí .

 2.   Kosning

Annar hluti, kosning verkefna, fer fram í haust. Stefnt er að því að 20 hugmyndir úr hverju hverfi fari í kosningu um forgangsröðun verkefna. Matshópur fer yfir allar innsendar tillögur, kostnaðarmetur og stillir upp til kosninga.

Hverju hverfi verður ráðstafað fé í hlutfalli við íbúa og þátttakendur í kosningunum ráðstafa því fé til þeirra verkefna sem þeir vilja að verði framkvæmd. Einungis íbúar Kópavogs, 16 ára og eldri, geta kosið á milli verkefna. Nánara fyrirkomulag kosninganna verður kynnt er nær dregur.

3.  Framkvæmd

Þriðji hluti, framkvæmd, hefst í haust og stendur til ársloka 2017. Framkvæmdaáætlun verður kynnt að loknum kosningum og verður hægt að fylgjast með framgangi verkefna á www.kopavogur.is/okkarkopavogur.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér