Þann 26. maí síðastliðin boðaði Kópavogsbær til fundar í Kársnesskóla undir formerkjum verkefnisins „Okkar Kópavogur, taktu þátt“. Dagana á undan höfðu samskonar fundir verið haldnir í fleiri hverfum bæjarins. Markmið verkefnisins, samkvæmt heimasíðu Kópavogsbæjar, er að hvetja íbúa til að taka þátt í málefnum sem varða þeirra nærumhverfi og að þeir móti sér skoðun á nærumhverfi sínu. Þá vilja bæjaryfirvöld auka samtalið og hvetja til þátttöku um útdeilingu fjármagns í smærri framkvæmdum á vegum bæjarins með íbúakosningu. Markmið bæjaryfirvalda er því að dreifa valdinu með þátttökufjárlagagerð, virkja alla þjóðfélags- og aldurshópa og að samfélagið vinni saman að betri hverfum. Markmið verkefnisins er að tengja bæjaryfirvöld við íbúa, hvetja alla íbúa til að láta sig nærumhverfið varða og hafa skoðun á því, íbúar komi hugmyndum sínum á framfæri og íbúar taki þátt í að ráðstafa fjármagni sveitafélagsins.
Þátttaka á fundinum var, væntanlega, undir væntingum eða um það bil 30 íbúar ásamt 20 embættismönnum bæjarins og fulltrúum úr bæjarstjórn.
Á fundargestum mátti greina áhyggjur af Kársnesinu og þeirri þróun sem á sér stað varðandi uppbyggingu svæðisins. Margt hefur breyst í áranna rás og eru ekki allir á eitt sáttir með þá þróun sem átt hefur sér stað.
Það sem vekur áhuga minn á verkefninu „Okkar Kópavogur, taktu þátt“ eru markmiðin. Falleg orð á pappír en er viljinn fyrir hendi? Hafa bæjaryfirvöld virkilega það markmið að tengjast íbúum og að íbúar láti sig nærumhverfið varða? Er þetta allt saman sýndar lýðræði?
Bæjaryfirvöld fara mikinn þessa dagana með tilkynningar um uppbyggingu svæða t.d. Naustavör, Gustssvæðið og svæðið við Smáralind. Þétt byggð kallaði byggingarfulltrúi svæðið í Naustavör þar sem byggja á eitthvað um 400 íbúðir. Við Smáralind á að byggja 602 íbúðir með möguleika á að auka íbúðirnar upp í 615!
Það er gott og blessað að Kópavogur vaxi og dafni en hvað gerist þegar íbúar láta sig nærumhverfið varða og mótmæla til dæmis þessu byggingamagni? Íbúar fá yfir sig holskeflu af embættismannahjali og hrokafull svör. Eitt sem öll þessi þétting byggðar á sameiginlegt er bílaumferðin sem eykst en alltaf er skellt skollaeyrum við. Það kom á óvart við lestur fréttar um svæðið við Smáralind að hver íbúð fær bílastæði sem er 1,1 eða 1,2 að stærð. EF fleiri bílar eru á hverja íbúð þá er fullt af bílastæðum við Smáralind!!! Byggjum, byggjum, byggjum og hugsum svo um gatnakerfið, umferðina og öryggi barnanna okkar seinna.
Ef bæjaryfirvöld hafa virkilegan áhuga á því að tengjast íbúum bæjarins þá væri gaman að hvetja bæjaryfirvöld til að hlusta á íbúana. Þegar umræðan á fundinum í Kársnesskóla barst að umferðaþunga á Kársnesinu þá vildi bæjarstjóri ekki að sú góða stemming sem myndast hafði á fundinum myndi eyðileggjast.
Ég og fleiri höfum áhyggjur af aukinni bílaumferð á Kársnesinu, fyrirtækjum sem eru með þungaflutninga, rútum sem fara þarna um í auknu magni og það á svæði þar sem gangstéttir hafa ekki verið fullkláraðar. Þá spyr ég einnig um rýmingaráætlun fyrir Kársnesið m.t.t. almannavarnaráætlunar. Hverjar eru flóttaleiðirnar?
Ég vil koma með þá tillögu, sem íbúi sem lætur nærumhverfið sig varða, um tilfærslu á Kársnesbraut og Vesturvör niður að göngustígnum því þá fengi bæjarstjóri umferðina beint í æð. Þá erum við að tala um framfarir í Kópavogi.
-Héðinn Sveinbjörnsson.