Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir og fyrrverandi Alþingismaður býður sig fram til að leiða lista vinstri grænna í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí í vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ólafi sem er svohljóðandi:
„Í bæjarstjórn eru teknar mikilvægar ákvarðanir sem snerta daglegt líf fólks. Þar nægir að nefna leiksskóla og grunnskóla, skipulag hverfa og umhverfismál, æskulýðs og íþróttamál, auk málefna aldraðra, öryrkja og önnur velferðarmál. Þegar kemur að þessum mikilvægu málum eru því ákvarðanir mun nær fólki og því skiptir það okkur öll máli hvernig sveitarfélögum er stjórnað.
Ég hef áður starfað á þessum vettvangi og er tilbúinn að takast á við þá áskorun að nýju. Ég tel að stóru málin í vor muni snúa að húsnæðismálum og húsnæðisöryggi, umhverfismálum og skólamálum. Auðvitað munu allir málaflokkar sem heyra undir sveitarfélögin verða í deiglunni en þarna tel ég að þunginn muni verða mestur.
Kópavogur mun á næstu árum halda áfram að þróast úr því að vera stór bær á íslenskan mælikvarða í að líkjast meira lítilli borg. Eftir því sem bærinn stækkar og verður fjölmennari verður það meiri áskorun að láta lýðræðið virka og veita bæjarbúum meiri aðkomu að ákvörðunum sem þá varða. Þeirri þróun vil ég taka þátt í og eiga samtal við bæjarbúa um hvernig þeir geta það einnig sem virkir þátttakendur.
Stærri og flóknari verkefni kalla á meiri samvinnu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Samstarf á sviði félagsþjónustu, húsnæðisúrræða og umhverfis og skipulagsmála þarf að vera enn meira en áður. Öll sveitarfélögin verða að taka þátt í úrlausn húsnæðisvandans, bæði með betri þjónustu hvað varðar félagslegt húsnæði og með niðurgreiðslu húsnæðiskostnaðar til þeirra er þurfa. Enginn ætti að þurfa að nota meira en þriðjung ráðstöfunartekna til að tryggja sér öruggt húsnæði.”
Kópavogur er samfélag sem ég hef metnað til að gera betra og vil taka þátt í því með bæjarbúum. Hér hef ég búið mest alla mína tíð, þekki bæinn vel og innviði hans. Ég tel mig geta lagt mikið af mörkum við að gera Kópavog enn betri.