„Langaði eitt sinn að berja Gunnar Birgisson.“ Ómar Stefánsson gerir upp málin.

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi og oddviti framsóknarmanna í bæjarstjórn Kópavogs, tilkynnti á dögunum að hann verði ekki í framboði fyrir næstu sveitastjórnarkosningar. Hann hafi hins vegar hug á að bjoða sig fram á ný fyrir kosningarnar 2018. Í nýjasta Kópavogsblaðinu er rætt við Ómar sem leggur spilin á borðið og gerir upp stór mál sem hann hefur haft aðkomu að í bæjarpólitíkinni.

Ómar Stefánsson.
Ómar Stefánsson.

-Hvers vegna þessi tímasetning, af hverju dregur þú þig í hlé núna?
„Það er fyrst og fremst út af fjölskyldunni. Ég á þrjú börn sem eru á skólaaldri og mig langar að fylgjast enn frekar með þeim og athuga hvort ég eigi einhverja vini ennþá. Það er engin önnur ástæða,“ segir Ómar, sem boðar endurkomu í stjórnmálin síðar. „Ég ætla að bjóða mig aftur fram árið 2018 og verða þá í þessu eins lengi og ég mögulega get. Ég ætla ekkert að þekkja minn vitjunartíma,“ segir Ómar og hlær.

-Það eru þá ekki tvísýnar horfur hjá Framsóknarflokknum sem fá þig til að taka þessa ákvörðun núna?
„Nei, síður en svo. Þetta hefur verið að gerjast hjá mér mjög lengi og margir hafa vitað af, þetta hefur legið lengi fyrir. Það er nóg til af kraftmiklu fólki í Framsóknarflokknum og það kemur alltaf maður í manns stað. Ég klára mitt kjörtímabil og verð ekki í endurkjöri í vor. Hleypi nýju fólki að.“

-Þú hefur verið dágóðan tíma í bæjarpólitíkinni?
„Já, árið 1986 gekk ég í Framsóknarflokkinn enda var ég þá nýútskrifaður úr Bændaskólanum og ekkert annað kom til greina. Þremur árum síðar settist ég í stjórn ungra framsóknarmanna í Kópavogi og tók sjötta sæti á lista flokksins árið 1990.  Að loknum kosningu hófst samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Árið 1998 varð ég varabæjarfulltrúi og fékk þá fyrsta nasaþefinn af sveitastjórnarmálunum sem ég hef verið mjög mikið viðriðinn síðan. Um síðustu aldamót hófst mikil uppbygging í bænum þar sem ég sat á hliðarlínunni og lærði á allt mögulegt hjá þeim Sigurði Geirdal og Gunnari Birgissyni. Sérfræðiþekking Gunnars, sem er doktor í jarðvegsfræðum, varð til þess að ég fór að kynna mér ótrúlegustu hluti eins og þykkt á lagnapípum og mismunandi undirlag á vegum og mun á klæðningu og malbiki. Sigurður var meiri rekstrarmaður og horfði til þess að byggja lítil hverfi eins og lítil þorp úti á landi þar sem grunnþjónusta væri til staðar með skóla og leikskóla. Hjá Gunnari snérist þetta meira um hús og vegi, rör og dýnamít,“ segir Ómar og bætir því við að hann hafi þarna haft tvo bestu kennara sem hægt er að fá í pólitík.

-Hvernig gekk samstarfið við Gunnar?
„Það gat oft verið mjög stormasamt. Hann var stórhuga og reyndi oft að finna leiðir að sínum markmiðum framhjá fólki. Stundum kom til átaka eins og þegar við ræddum um að bjóða út gerð ársskýrslu bæjarins. Sigurður heitinn var þá á enn lífi. Ég vildi að við byðum út verkefnið. Þá varð Gunnar svo reiður að hann strunsaði út úr fundarherberginu með þeim orðum að ég væri á móti sér og sinni fjölskyldu. Ég elti hann og svaraði því fullum hálsi en þá sló hann mig fast í bringuna „að sjómannasið,“ eins og sagt er. Mér krossbrá og snöggreiddist við þetta og elti hann að skrifstofu hans en þá skellti hann hurðinni beint á nefið á mér. Það sauð á mér þarna og munaði litlu að ég rifi upp hurðina inn á skrifstofu hans og færi bara almennilega í kallinn. Mig langaði í eitt sinn að berja Gunnar Birgisson,“ segir Ómar og verður greinilega heitt í hamsi þegar hann rifjar þetta upp.

-Hver vann?
„Það vinnur nú aldrei neinn í svona. Sem betur fer rann mér reiðin. En Sigurður Geirdal vék frá á meðan þessu stóð og leyfði mér að blása út í nokkra stund. En málinu lauk með því að við buðum út verkefnið. Svona gat þetta verið,“ segir Ómar.

-Síðan fellur Sigurður Geirdal frá?
„Já því miður. Í kosningunum árið 2002 vinnum við framsóknarmenn sigur og náum þremur mönnum í bæjarstjórn; Sigurð Geirdal, Hansínu Björgvinsdóttur og mig. Við mynduðum meirihluta með Sjálfstæðisflokknum, með Sigurð sem bæjarstjóra, gegn því að Gunnar fengi bæjarstjórastólinn á síðasta ári þess kjörtímabils. Ég var því andvígur og vildi ekki mynda meirihluta með þessum skilyrðum. Ég vildi að Sigurður yrði bæjarstjóri allt tímabilið. Þá sagði hann við mig: „Ómar minn, þú ræður ekki við hvað ég vinn.“ Þetta situr í mér. Sigurður var mjög stjórnvitur maður sátta, umburðarlyndis og þolinmóður og þolinmæði er kostur sem ég öfunda menn mjög af. Hann féll frá tæpu ári áður en skiptin fóru fram. Nokkrum dögum áður vorum við saman í fótbolta í tilefni af 10 ára afmæli Smárans og hann lék þar eins og unglamb. Það var því mjög mikið áfall þegar hann lést.

-Þá tekur þú við keflinu?
„Nei, Hansína Björgvinsdóttir tók við sem oddviti og kláraði tímabilið. En 12. nóvember 2005 sigraði ég í prófkjöri framsóknarmanna með 666 atkvæði í fyrsta sæti. Ég er ennþá með úrslitin í veskinu. Talnafróðir sögðu mér að óþarfi væri að hafa áhyggjur af þessari tölu – þó svo að tengingin við Kölska væri augljós,“ segir Ómar og hlær. Þetta var mjög sætur sigur fyrir mig persónulega. Í kosningunum árið 2006, náðum við framsóknarmenn bara einum manni inn og mynduðum meirihluta með Sjálfstæðisflokknum og ég varð formaður bæjarráðs. Þetta hélst óslitið til ársins 2010. Þetta eru ár mikillar uppbyggingar og þenslu þar sem íbúafjöldi Kópavogs stóreykst. En svo kemur hrunið og lóðum er skilað til bæjarins í umvörpum. Það sem stendur upp úr eftir þann tíma, finnst mér, að þá komu allir flokkar að borðinu í gerð fjárhagsáætlana og við stóðum þétt saman. Ég var mjög ánægður með þá samkennd og samvinnu sem þar myndaðist á milli flokka.“

-Það hristi í stoðum þegar lífeyrissjóðsmálið kom upp, ekki satt?
„Já svo sannarlega. Málið snérist um að við, sem sátum í stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar og vorum jafnframt í bæjarstjórn, vorum að koma fjármunum sem lífeyrissjóðurinn átti, í skjól. Þetta var björgunaraðgerð sem allir voru sammála um. Við innleystum fjárfestingar eins og við gátum fyrir hrun og lánuðum bæjarsjóði – í staðinn fyrir að tapa þeim á eignarbálinu sem varð. Við hefðum átt að fá medalíu fyrir þetta í stað þess að liggja undir grun um einhver óheilindi og óheiðarleg vinnubrögð. Við höfðum allan tímann hagsmuni lífeyrissjóðsins og bæjarins að leiðarljósi og það var alltaf skýrt,“ segir Ómar og er greinilega mikið niðri fyrir.

-Fjármálaeftirlitið vildi samt meina að þetta hefði verið ólöglegt og segir stjórninni upp. Var það rangt?
„Algjörlega. Við sem sátum í stjórn lífeyrissjóðsins vissum að bæjarsjóður bæri ábyrgð á honum. Peningar sjóðsins skipta mjög miklu máli. Tapi sjóðurinn þá tapar bæjarsjóður. Allir voru sammála því að passa upp á þetta. Í júní 2009 kom bréf frá Fjármálaeftirlitinu til stjórnarmanna lífeyrissjóðsins þar sem við erum tekin úr stjórninni. Við erum semsagt sett út úr stjórninni fyrir að hafa lánað sveitarfélaginu fyrir hrun þegar allt stefndi í óefni með lífeyrissjóði í landinu. Það hefði verið í fínu lagi að tapa öllum peningunum, fleiri hundruð milljónum, og allir setið áfram. En þegar það kemur í ljós að þetta sé ekki réttur skilningur hjá Fjármálaeftirlitinu þá er reynt að kæra okkur fyrir formsatriði, vitandi að aðrir stjórnarmenn höfðu ekki hugmynd um vanda sjóðsins nema formaður og framkvæmdastjórinn. Ég þurfti að búa við það í þrjú ár að vera álitinn sakamaður þegar ég gerði ekkert annað en að gæta hagsmuna bæjarins og lífeyrissjóðsins. Ég hef falið lögfræðingi mínum að undirbúa stjórnsýsluákæru gegn viðkomandi aðilum vegna þessa máls. Ég er mjög reiður út af þessu máli og þetta situr í mér,“ segir Ómar.

-Og þetta hafði pólitísk áhrif?
„Já, því á svipuðum tíma komu upp miklar umræður um viðskipti bæjarins við Frjálsa miðlun. Margir framsóknarmenn í Kópavogi vildu slíta samstarfinu eða að Gunnar Birgisson mundi víkja til hliðar vegna viðskipta bæjarins við dóttur hans. Gunnsteinn Sigurðsson settist í bæjarstjórastólinn í hans stað og áttum við Gunnsteinn mjög gott samstarf. Í kosningunum 2010 var ljóst að Framsókn yrði ekki boðið að taka þátt í meirihlutaviðræðum, meðal annars út af lífeyrissjóðsmálinu.

-En þú hélst ótrauður áfram í pólitík?
„Já, og það var mjög erfitt þegar var verið að ýja að því að ég væri óheiðarlegur. Samt sigraði ég prófkjör nokkuð örugglega og fór í kosningabaráttuna árið 2010, talsvert laskaður. En það var ekki fyrr en í fyrra, árið 2012, sem við í stjórninni vorum öll sýknuð í héraðsdómi Reykjanes. Gunnar Birgisson, formaður sjóðsins, og framkvæmdastjóri sjóðsins, fengu dóm en allir aðrir stjórnarmenn voru sýknaðir. Í dag er ég stimplaður saklaus. Þetta var gríðarlega erfiður tími sem reyndi á. Ég fann í fyrsta skipti fyrir raunverulegu álagi sem tók mjög mikinn toll og situr ennþá í mér. Þetta fer nú vonandi að róast,“ segir Ómar.

-Hvað ertu ánægðastur með að hafa áorkað í pólitíkinni í bænum?
„Tvímælalaust leik- og grunnskólamál ásamt byggingu íþróttamannvirkja í bænum. Ég er gríðarlega stoltur af því. Ég ætla nú ekki að eigna mér allt en ég á hlutdeild í þessu og það er búið að vera frábært að sjá hlutina framkvæmda og fylgjast með vexti bæjarins frá því ég kom að sem varabæjarfulltrúi árið 1998. Hér hafa orðið gríðarlegar breytingar. Í Kópavog sækir fólk til að búa og starfa.

-Hvað tekur nú við?
„Ætli ég fari ekki að skjóta gæsir á Blikasvæðinu og renna fyrir silung í Kópavogslæknum þegar Náttúrufræðistofa verður búin að skoða betur lífríki lækjarins,“ segir Ómar glaðlega. „Fiskurinn kemst ekki upp lækinn, eins og hann gerði áður, vegna stíflu sem var reist undir brúnni fyrir mörgum árum. Stífluframkvæmdin fór aldrei í gegnum neitt umhverfismat heldur var bara stíflað og búin til tjörn. En að öllu gamni slepptu þá verður aðal mál mitt að vera með fjölskyldunni og koma svo síðar tvíefldur í pólitíkina. Ég veit sjálfur að ég hef gert mitt besta og hef staðið mig vel og það er fyrir öllu. Hvað síðan framtíðin ber í skauti sér á eftir að koma í ljós“ segir Ómar Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi.“

Umræðan

Fleiri fréttir

Íbúar völdu saunur og skautasvell

Infrarauðar saunur og yfirbyggðir stigar í rennibrautir beggja sundlauga Kópavogs, vélfryst skautasvell í Kópavogsdal, bleikir bekkir til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur, aðstaða til sjósunds á Kársnesi og endurnýjun og

Höskuldur og Thelma íþróttakarl og íþróttakona ársins

Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður úr Breiðabliki og Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2024.  Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum miðvikudaginn 8.

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar

Aðventuhátíð Kópavogs

Aðventuhátíð í Kópavogi verður haldin með pompi og pragt, laugardaginn 30. nóvember. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri tendrar ljósin á jólatré Kópavogsbæjar við menningarhúsin við hátíðlega athöfn kl. 17. Jólasveinar bregða á