Kæri bæjarstjóri og bæjarfulltrúar.
Þorgeir heiti ég og er Kópavogsbúi.
Mig langar að koma athugasemd á framfæri varðandi útboðið til reksturs heilsurækta í sundlaugum bæjarins.
Í fyrsta lagi, hvernig staðið var að útboðinu og hvaða hlutir voru þar metnir bjóðendum til tekna.
Í öðru lagi hvaða áhrif þetta hefur á líf bæjarbúa í Kópavogi, kjör þeirra og heilsu.
Það sést glöggt þegar litið er yfir forsendur útboðsins að hagur Kópavogsbúa er ekki hafður að leiðarljósi og því miður ekki heldur hagur Kópavogsbæjar.
Stigagjöf var sett upp á eftirfarandi hátt.
- 5% Reynsla af rekstri líkamsræktar.
- 5% Reynsla af rekstri líkamsræktar tengdri sundlaug.
- 15% Verð á árskortum (sem gildir fyrsta árið, eftir það er verðið frjálst).
- 15% Föst leiga á mánuði.
- 60% Aðgangs- og þjónustugjald, m.v. 270.000 heimsóknir á ári.
Útboðið miðast við 8 ár með möguleika á framlengingu um 4 til viðbótar, alls 12 ár.
Þarna eru tveir liðir sem vega hvað mest sem eru í raun nánast óskilgreindir.
Verð á árskortum er látið gilda 15% í útboðinu. Það verð verður í boði eitt ár af þeim 12 sem samningurinn nær til. Þ.e. hvaða verð verður boðið upp á 8,3% samningstímans. Eftir 1 ár er frjáls verðlagning. Það verð sem WorldClass bauð fyrsta árið af samning sínum er 59.950 eða 42,3% hærra verð en Gym heilsa bauð. Það er engin trygging fyrir því að það verði ekki hækkað mun meira á samningstímanum, ég notaðist við google til að skoða verðþróun á líkamsræktarkortum hjá World Class Laugum og Gym heilsu (sem áður hét Actic, en sama kt.) samkvæmt þeim niðurstöðum komst ég að því að 23. september 2010 kostaði árskort í World Class í laugum 63.420 en í dag kostar það 79.990, hækkun upp á 16.570 kr. Hjá Actic (nú Gym Heilsa)á kostaði árskortið í Actic 31.419 kr, í dag kostar það 41.990kr, og er því hækkun Gym heilsu 10.571 kr þarna er 56% munur á hækkunum á innan við 4 árum. Hversu mikil ætli hækkun World Class verði á 12 árum, sér í lagi ef engin samkeppni verður eftir.
Aðgangs og þjónustugjald, sem greitt er fyrir hverja heimsókn iðkanda. Miðað er við 270.000 heimsóknir. Gildir þessi liður 60%.
Hvernig er hægt að gera ráð fyrir því að eftirspurnin verði 270.000 heimsóknir án þess að meta aðrar forsendur inn í. S.s. 66.6% verðskrárhækkun, það að nýi rekstraraðilinn skuli reka tvær aðrar líkamsræktarstöðvar í bæjarfélaginu fyrir eða aðra hluti svo sem almennings álit en svona mætti lengi telja. Hvernig er hægt að láta 60% af stigagjöfinni gilda fyrir huglægt mat. Aðsókn í heilsuræktina þarf einungis að dragast saman um 15,5% til að skila bæjarfélaginu minni pening á samningstímanum.
En hver eru áhrifin fyrir Kópavogsbúa, hvað hefur þetta áhrif á marga Kópavogsbúa?
Það er því miður staðreynd að það hafa ekki allir Kópavogsbúar efni á stunda heilsurækt vegna fjárskorts, með þessum breytingum þá hafa en færri möguleika á því, hækkun um 17.910 kr. eða 35.820 kr. parið er stór biti fyrir margar fjölskyldur eins og staðan er í dag.
Við vitum öll að hreyfing hefur jákvæð áhrif á heilsuna, bæði líkamlega og andlega. Til eru mörg dæmi þess að hreyfing hefur stuðlað að aukinni atvinnuþáttöku einstaklinga, og því miður líka að skortur á hreyfingu dragi úr atvinnuþáttöku, vegna andlegs og líkamlegs vanlíðan. Því er það stórt hagsmunarmál Kópavogsbæjar að sem flestir bæjarbúar stundi líkamsrækt af einhverjum toga.
Í dag æfa u.þ.b. 5.000 manns hjá GYM heilsu, þar af eru c.a. 75% Kópavogsbúar, það eru c.a. 3.750 manns.
Nú er verið að hækka árskortin þeirra um 17.960 kr. að lágmarki. Það gerir 67.350.000 króna hækkun á ári til íbúa í Kópavogi.
Ef við gefum okkur það að verðið haldist óbreytt og ásókn verði sú sem gefin er upp á samningstímanum, sem verður að teljast að séu harla ólíklegt, þá eru þetta auknar álögur á kópavogsbúa upp á “einungis” 808.200.000 kr. á 12 ára tímabili.
Hverju skilar þetta til Kópavogsbæjar? Það er í raun óvitað, en gefum okkur að aðsóknin haldist óbreytt, þá var tilboð WorldClass 12,4 milljónum hærra en tilboð núverandi rekstraraðila miðað við forsendur tilboðsins. Á 12 ára tímabili skilar það Kópavogsbæ auknum tekjum upp á 148,8 milljónir. Að sjálfsögðu eru það miklir peningar til að hjálpa við rekstur Kópavogsbæjar, en ef við drögum þær frá þeim auknu álögum sem leggjast á Kópavogsbúa þá tilboðið óhagstæðara um 659.400.000 kr. Þessir peningar renna beint úr vösum bæjarbúa til WorldClass.
Kæri bæjarstjóri og bæjarfulltrúar:
- Er það niðurstaða bæjarráðs Kópavogsbæjar að World Class sé best til þess fallið á sjá um þennan rekstur?
- Er það hagur Kópavogsbæjar að taka tilboði World Class?
- Er það gert með hagsmunum bæjarbúa að leiðarljósi að samþykja tilboð World Class?
Getur það verið að einhverjar mig vanti einhverjar forsendur í jöfnuna, er mér að yfirsjást eitthvað?
Virðingarfyllst, Þorgeir Valur Ellertsson Kópavogsbúi