Opið bréf til skipulagsyfirvalda Kópavogs

Sandra Fairbairn.

Eftir Söndru Fairbairn, íbúa og eiganda Birkigrundar 33 og móður þriggja drengja á aldrinum 4ja til 8 ára

Í kjölfar íbúafundar í Snælandsskóla á dögunum langar mig að senda ykkur helstu athugasemdir mínar við fyrirhugaðar breytingar á húsnæðinu við Furugrund 3. Fyrir þau ykkar sem ekki sátu fundinn er skemmst frá því að segja að húsfyllir var á fundinum og einkenndist hann af mikilli andstöðu og reiði vegna fyrirhugaðra breytinga á landnotkun á lóð nr. 3 við Furugrund.

Breyting á aðalskipulagi er stórmál
Í mínum huga er enginn vafi á að best færi á því að nýta húsnæðið við Furugrund 3 í þágu íbúa hverfisins og bæta úr þeim húsnæðisvanda sem Leikskólinn Furugrund og Snælandsskóli búa við. Einnig gæti farið vel á því að hafa þar þjónustu við fatlaða og/eða aldraða íbúa bæjarins, bókasafn og annað í þeim dúr. Farsælast hefði verið ef haft hefði verið samráð við íbúa hverfisins um notkun húsnæðisins frá upphafi, eins og lagt var til í skipulagsnefnd á sínum tíma, en þeirri tillögu var hafnað. Það þykir mér helst til einkennilegt þegar íbúasamráð var eitt þeirra málefna sem mestan hljómgrunn fengu rétt fyrir síðustu kosningar. Þess í stað var farið í málið nánast bakdyramegin, og íbúum ekki kunnugt um nein áform fyrr en nú miklu síðar þegar svo virðist sem búið sé að lofa nýjum eigendum húsnæðisins breytingum á annars nýsamþykktu aðalskipulagi og byggingu íbúða á lóðinni. Breyting á aðalskipulagi á ekki að vera smámál eins og látið var í veðri vaka á fundinum, það er stórmál. Það verður ekki annað sagt en að þetta mál, eins og það kemur fyrir sjónir á þessu stigi málsins, líti vægast sagt illa út fyrir bæjaryfirvöld.

Börnin sitji við sama borð
Þekkt er að í Snælandsskóla er ekki eldhús eða almennilegur mötuneytissalur og börnin þar borða flest mat í hádeginu sem eldaður er í Keflavík snemma morguns. Jafnframt býr dægradvölin í skólanum við þröngan og lakan kost. Nýta mætti húsnæðið við Furugrund 3 til að bæta úr þessu. Jú, eflaust þyrfti að breyta því eitthvað og í það þyrfti fjármagn, en hér má líka bera saman aðstöðu barna í efri byggðum Kópavogs, og það fjármagn sem sett hefur verið í að byggja hana upp, við það sem börnin í eldri hverfum búa við. Það er lykilatriði að börnin í bænum sitji við sama borð (eða að minnsta kosti sambærilegt) hvort sem þau búa í nýju hverfunum eða þeim eldri.

Þröngur húsakostur leikskólans Furugrund
Leikskólinn Furugrund býr við ótrúlega þröngan húsakost og er það hreint út sagt afrek að starfsfólkið þar láti daglegt starf ganga upp í því litla rými sem er til staðar. Enginn salur er í leikskólanum, sem er líklega einsdæmi í Kópavogi, og eins og gefur að skilja takmarkar þetta starfið á margan hátt. Ekkert rými er fyrir sameiginlegar söngstundir, leiksýningar hvort sem um er að ræða aðkeyptar eða heimatilbúnar, leikfimi, frjálsan leik í opnu rými, foreldrafundi, sýningar fyrir foreldra, blöndun og leikur barna af ólíkum deildum verður minni, og svo mætti lengi telja. Einnig er lóðin einstaklega lítil, þótt góðar endurbætur hafi verið gerðar á henni nýverið, aðstaða til sérkennslu mjög bágborin, og fataklefar eldri deilda svo þröngir að varla er hægt að athafna sig þar. Fermetrafjöldi á barn í Leikskólanum Furugrund er vel undir meðaltali í Kópavogi og langt undir því sem gerist í nýjum leikskólum í efri byggðum Kópavogs. Ljóst er að stækkun er brýn og við aðgerðaleysi bæjaryfirvalda í húsnæðismálum leikskólans verður vart við unað lengur.

Afleit vinnubrögð
Að þröngva breytingum á aðalskipulagi í gegn, þvert á vilja íbúanna í hverfinu gætu ekki talist annað en afleit vinnubrögð af hálfu bæjaryfirvalda. Mig langar því að skora á ykkur, sem kosin voruð til að þjónusta okkur, íbúa bæjarins, að fara ekki þá leið. Nýtið frekar tækifærið til að bregðast við þeim húsnæðisvanda sem Leikskólinn Furugrund og Snælandsskóli búa við. Ljóst er að annað eins tækifæri mun ekki standa til boða í bráð, ef þá nokkurn tíma, og bygging íbúðablokkar verður ekki aftur tekin. Furugrund 3 og skólarnir í kring eru hjartað í Snælandshverfi. Nánast sama við hvern þetta mál er rætt, allir íbúar hverfisins virðast sammála um að ekki fari vel á því að breyta húsnæðinu í íbúðablokk. Nær sé að nýta það til að styðja við og styrkja það annars góða skóla-, íþrótta- og tómstundastarf sem þegar er til staðar og láta íbúana njóta góðs af. Markmið um þéttingu byggðar er gott og gilt og getur í mörgum tilfellum farið vel á því samanborið við hið andstæða, en að framfylgja því í blindni, án þess að taka tillit til áhrifa þess á lífsgæði íbúanna sem fyrir eru, er glapræði og hlýtur að vinna gegn yfirmarkmiðum um betra bæjarfélag.

Vantar ekki litlar íbúðir
Í annan stað, að ef ætlunin er að byggja nýjar íbúðir í Snælandshverfi, og þá vonandi annars staðar en í Furugrund 3, þá tel ég rétt að koma því á framfæri að litlar 2ja-3ja herbergja íbúðir eru alls ekki það sem vantar í hverfið. Snælandshverfið einkennist af því að hér eru annars vegar mjög margar litlar íbúðir og hins vegar stór hús. Hér vantar milliveginn, þ.e. stærri íbúðir, eða 4ra-5 herbergja. Mörg dæmi eru um fjölskyldur með 2-3 börn eða fleiri sem búa í litlum íbúðum og vildu gjarnan stækka við sig án þess að þurfa að fara úr hverfinu og láta börnin skipta um skóla. Hins vegar er mjög lítið framboð af stærri íbúðum og húsin oft á tíðum dýr.

Umferðarþungi
Annað sem bæta þarf úr ef fjölga á íbúðum í Snælandshverfi eru bílastæðamálin annars vegar og vandamál tengd umferðarþunga hins vegar. Leysa þarf þann bílastæðavanda sem í hverfinu er, og þá sérstaklega í Furugrund og Ástúni. Kom það mjög á óvart á íbúafundinum að formanni skipulagsnefndar væri ekki kunnugt um þann mikla skort á bílastæðum sem þegar er til staðar. Hvað umferðarþungann varðar var bent á á fundinum að íbúðum fylgi minni umferð en verslun og þjónustu. Ég tel hins vegar að lykilatriði hér sé á hvaða tíma umferðin er. Erum við að tala um aukna umferð á annatímum, þ.e. þegar allir eru á leið í og úr vinnu, og börn á leið í skóla, eða umferð sem dreifist yfir daginn, líkt og við á um verslun og þjónustu. Aukin íbúaumferð á annatímum myndi margfalda álagið á stöðum þar sem flöskuhálsar eru þegar til staðar. Ef hugmyndir um nýtingu Furugrundar 3 í þágu Leikskólans Furugrundar og Snælandsskóla yrðu að veruleika, myndi því ekki fylgja aukin umferð, einungis sú umferð sem þegar er til staðar.

Með von um góð viðbrögð og samráð héðan af:
Sandra Fairbairn, íbúi og eigandi Birkigrundar 33 og móðir þriggja drengja á aldrinum 4ja til 8 ára

Umræðan

Fleiri fréttir

Aðventuhátíð Kópavogs

Aðventuhátíð í Kópavogi verður haldin með pompi og pragt, laugardaginn 30. nóvember. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri tendrar ljósin á jólatré Kópavogsbæjar við menningarhúsin við hátíðlega athöfn kl. 17. Jólasveinar bregða á

Fjárhagsáætlun samþykkt

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að lokinni seinni umræðu í vikunni Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun fyrir tímabilið 2026-2028. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að

Sóley heimsmeistari

Sóley Margrét Jónsdóttir varð í síðustu viku heims­meist­ari í kraft­lyft­ing­um með búnaði í +84 kg flokki og tryggði sér um leið réttinn til að keppa á Heimsleikunum (World Games) sem

Hættum keðjuverkandi skerðingum

Ég verð bara að segja eins og er að ég var kominn með bullandi ofnæmi fyrir ríkisstjórninni og sennilega var ríkisstjórnin einnig kominn með alvarlegt bráðaofnæmi fyrir sjálfri sér. Já,