Eygló Harðardóttir velferðaráðherra og Kristján Þór Júlíusson Heilbrigðisráðherra
Þetta er bréf til ykkar frá móður sem á son sem er fíkill.
Mig langar svo að skilja þessi tvö kerfi s.s velferðakerfið og heilbrigðiskerfið en kanski er það rétt hjá mér að þessi kerfi eru raunverulega ekki til nema í ráðuneytinu sem stöðugildi fyrir fólk með fín laun.
Mig langar til að fá útskýringu á því hvernig hægt er að loka geðdeild 33 a vegna framkvæmda og ekki vera með neitt úrræði í staðin, hvernig hægt er að útskrifa fárveikan fíkil eftir 5 sólahringa í afeitrun út á götu?
Ég byrjaði á því að kynna mig sem móður sem á son sem er fíkill nú ætla ég að leyfa ykkur að kynnast mér betur. Ég er aðstandandi og hef verið það frá því ég kom í heiminn. Sem aðstandandi hef ég fengið þroska sem fáum er gefin. Ég hef unnið í mér sem aðstandandi í fjölda mörg ár og þekki fíknisjúkdómin vel. Sem aðstandandi og sem fagaðili ég hef til langs tíma unnið með aðstandendum og er mjög fær í þeirri vinnu.
Sonur minn er 26 ára gamall hann byrjaði snemma í neyslu og fór hratt í harða neyslu. Hann var nær dauða en lífi þegar hann hætti árið 2007 en þá fór hann í árs meðferð. Ég fékk hann til baka bjartan og fallegan í rúm fjögur ár en eftir fjögurra ára edrúmennsku féll hann!
Vá hvað það var sárt!
Ég man að ég og dóttir mín s.s systir hans grétum eins og hann hefði dáið því við mundum að það var það eina sem var eftir áður en hann hætti.
Nú hefur hann barist við fíknina síðan hann féll. Það hafa komið góðir tímar en fallið er hátt. Ég gleymdi að segja ykkur að hann er Contafíkill s.s sprautar sig með læknadópi (morfín). Hann er búin að vera á götunni núna í nokkra mánuði að sprauta sig, fremja afbrot og það sem fylgir þessu líferni.
Ég hef haft miklar áhyggjur af honum og óttast að fá símtalið s.s símtalið sem tilkynnir mér andlát hans.
Ég veit að ég er algerlega vanmáttug gagnvart fíkninni og ég veit að ég get ekki stjórnað fíkninni og ég get ekki bjargað honum frá fíkninni. Kann það upp á 10 en hann er sonur minn og ég elska hann og sorgin mín er sönn yfir því að hafa misst hann. Ég bið fyrir honum og kveiki ljós fyrir hann , það er allt sem ég get.
Ég var glöð og mér var létt þegar hann hringdi fyrir 6 dögum og sagði mér að hann væri komin inn á geðdeild og að hann gæti ekki meira þarna úti, því hann væri búin líkamlega og andlega. Ég fór og hitti hann svo þegar hann var á þriðja degi… vá hvað það var sárt!
Að sjá hann grindhoraðan, tekin, búin að missa nokkrar tennur og með ljót sprautuför. Hann var mjög þreyttur og brotin. Hann er líka með lifrabólgu og lifrin í honum svo bólgin að hann verkjar. Hann var inná spítala vegna þess fyrir stuttu.
Í huganum þakkaði ég guði fyrir að hafa leitt hann inn á geðdeild.
Ég hafði engin ítök með að koma honum inn á geðdeildina hann sá alveg um það sjálfur. Ég hef lært að fíkillinn verður að framkvæma sjálfur.
En í gær hringdi hann og sagði mér að deildinni yrði lokað á morgun og að ekkert annað tæki við bara gatan. Ég sagði að það gæti ekki verið við byggjum við heilbrigðis og velferðakerfi og ég gæti ekki trúað því að hann yrði settur út þeir myndi finna handa honum úrræði. Hann var brotin í símanum og sagði að það væri ekkert annað úrræði.
Í morgun var hringt frá geðdeildinni og spurt hvort sonur minn væri hjá mér.
Það var búið að útskrifa hann út á götu fyrir klukkan 10 í morgun og ég spurði hvort það væri virkilega ekkert sem tæki við. Mér var sagt að þeir sem væru veikastir og með greinda geðröskun væru settir á aðrar deildir en aðrir útskrifaðir.
Þegar ég spurði hvernig er hægt að útskrifa fíkil eftir 5 daga afeitrun ? var mér sagt að hann hefði verið upplýstur um það áður en þeir tóku hann inn að deildin myndi loka vegna framkvæmda.
Þannig að sonur minn er ekki nógu veikur. Hvenær er fíkill nógu veikur?
Ég hef ekkert heyrt í honum eftir að hann var útskrifaður og ég játa að ég er hrædd um líf hans.
Þetta bréf snýst ekki bara um hann heldur alla þá sem fá ekki þá hjálp sem þeir þurfa.
Ég veit um fleiri dæmi en nefni bara mitt í þessu opna bréfi.
Ég enda þetta bréf með nokkrum spurningum sem ég vildi gjarnan að yrði svarað:
Eru fíklar ekki fólk?
Hverjir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu í þessu landi og eru mannréttindi ekki fyrir alla hópa?
Hver hagnast að því að útskrifa fíkil á götuna eftir 5 daga afeitrun?
Er það forsvaranlegt að loka geðdeild vegna lagfæringa og ekki vera með neitt sem tekur við?
Hefði ekki verið betra að sleppa því að taka hann inn og sjá hvort velferðakerfið hefði þá verið svo heppinn að hann dræpi sig þarna úti og því þyrfti ekki að sinna honum?
Eða hver haldið þið að kostanaðurinn sé fyrir samfélagið að setja hann aftur á götuna?
Háttvirtu ráðherrar: hvers virði eru mannslíf ?
-Kristín Snorradóttir