Nú er opið fyrir umsóknir á nýstofnuðu afrekssviði Menntaskólans í Kópavogi. Nemendur sem skrá sig á sviðið útskrifast af bóknámsbraut – afrekssviði og fá 5 einingar á önn fyrir þátttöku. Þannig mæta þau í þrjá tíma í viku með áherslu á tækniþjálfun, styrktarþjálfun og bóklega tíma. Daði Rafnsson, fagstjóri afrekssviðs segir breiðan hóp íþróttafólks rúmast innan afrekssviðsins.
„Þetta er ekki einungis fyrir íþróttafólk í hópíþróttum og boltagreinum heldur hvetjum við alla sem eru virkir í íþróttafélögum innan raða ÍSÍ að kynna sér námið vel. Hver íþróttagrein hefur sínar tækniæfingar en í styrktarþjálfun ætlum við að kenna nemendunum að bera ábyrgð á eigin líkamsþjálfun. Í bóklegum tímum verður farið yfir næringarfræði, íþróttasálfræði, þjálffræði og svo erum við líka mjög spennt fyrir því að kenna þeim að eiga uppbyggileg samskipti, hvernig þau geta notað samfélagsmiðla og að koma fram í fjölmiðlum. Einnig kennum við samningatækni sem nýtist þeim vonandi á sinni vegferð.“
Mikill áhugi er á náminu enda segir Daði að það búi mikill kraftur í ungu íþróttafólki í Kópavogi. „Við erum með frábær félög í Kópavogi sem eru leiðandi á landsvísu. Okkur hefur vantað að geta haldið betur utan um íþróttafólk á þessum aldri og erum spennt fyrir haustinu.“