Ormadagar, barnamenningarhátíð fyrir leikskólabörn í Kópavogi, eru á næsta leiti en þeir fara fram í menningarhúsum Kópavogsbæjar dagana 18. til 24. apríl. Tónlistarskóli Kópavogs tekur einnig þátt í hátíðinni.
Leikskólabörnum úr öllum leikskólum bæjarins verður á Ormadögum boðið að kynnast fjölbreyttu lista- og menningarstarfi menningarhúsa bæjarins. Verður þeim meðal annars boðið á tónleika og á hljóðfærasmiðjur en einnig fá þau fræðslu um bókaorma og alvöru orma.
Á hátíðinni fá börnin ekki bara tækifæri til að fræðast um listir og menningu heldur fá þau einnig innsýn í starf menningarhúsa á borð við myndlistarsafn, tónleikahús, tónlistarskóla og bókasafn. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er sem fyrr Pamela De Sensi tónlistarkona.
Stefnt er að því að hátíðinni ljúki á laugardeginum 24. apríl með sérstakri ormadagskrá sem hefst kl. 13 á fjölskyldudegi menningarhúsanna.
Nánari dagskrá Ormadaga verður kynnt á vef og Facebook síðu Kópavogsbæjar þegar nær dregur.