
Framsóknarflokksins í Kópavogi.
Sá draumur meirihluta Bjartrar Framtíðar og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Kópavogs að flytja stjórnsýslu bæjarins í Norðurturninn við Smáralind er úti. Um margra mánaða skeið var tekist á um þessa leið sem að mínu mati var óásættanlega m.a. vegna kostnaðar en í Norðurturninum hefði bærinn greitt eitt hæsta verð per. fermetra sem fyrirfinnst á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hljómar sérkennilega sérstaklega í ljósi þess að bærinn er eitt skuldugasta sveitarfélag landsins.
Á fundi bæjarstjórnar fyrir um mánuði síðan, þegar ljóst var að ekki var meirihluti fyrir því í bæjarstjórn að ganga til samninga um kaup á 3 hæðum í Norðurturninum, tók meirihlutinn skyndilega u-beygju í fundarhléi. Kom þá fram tillaga um að ráðist yrði í nauðsynlegar endurbætur á húsnæði stjórnsýslunnar á Fannborgarreitnum skv. fjárhagsáætlun. Þessi tillaga meirihlutans var samþykkt með 9 atkvæðum, einn bæjarfulltrúi var á móti og einn sat hjá.
Síðastliðinn föstudag hringdi bæjarstjóri í mig og tilkynnti mér að hann hefði skrifað undir kauptilboð, með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar, að húseigninni Digranesvegi 1 (Íslandsbankahúsið). Bæjarráð hafði fundað deginum áður en bæjarstjóri ákvað að upplýsa ekki um málið á fundi bæjarráðs (sem hefði þá fengið eðlilega umfjöllun). Kaupverð eignarinnar er 585 m.kr. þannig að hér er ekki um neitt smámál að ræða og hlýtur að vera án fordæma að slík ákvörðun sé tekin með þessum hætti.
Sjálfur á ég eftir að fá heildstæða yfirferð á forsendum allra útreikninga. Leyndin og pukrið í kringum þessa ákvarðanatöku er með öllu óviðunandi stjórnsýsla.
Að því sögðu þá vil ég benda á, við fyrstu sýn, að verð á hvern fermeter á Digranesvegi 1 er undir 300.000 kr. á meðan Norðurturninn hefði trúlega farið á 430-450.000 kr. eða á allt að 50% hærra verði. Staðsetningin er að sama skapi miklu betri – í nágrenni við helstu menningarstofnanir okkar Kópavogsbúa.
Ég vil þakka þeim félögum mínum í bæjarstjórn Kópavogs sem stóðu gegn þeim áformum að flytja höfuðstöðvar stjórnsýslunnar í Norðurturninn. Ég vil líka þakka hópi fólks úr öllum stjórnmálaflokkum sem barðist gegn fyrirhuguðum flutningi.
Með því að koma í veg fyrir þessi áform mun bærinn okkar standa betur fjárhagslega og miklu betri lausn fást í húsnæðismálin heldur en í stefndi.