Árið 1971 vann leikfimihópur kvenna, undir stjórn Margrétar Bjarnadóttur, að stofnun fimleikafélags í Kópavogi. Þær sömdu lög og reglur fyrir hið nýja félag og skrifuðu niður margar tillögur af nöfnum. Valið stóð á milli „Geirfuglarnir“ og „Gerpla.“ Þórdís, heitin, Þorvarðardóttir stakk upp á Gerplu nafninu og þótti það vel við hæfi. Gerplufélögum er nafnið kært en ýmsar sögur hafa verið á kreiki um notkun þessa orðs til forna. Ingvar Árnason, formaður Gerplu á árunum 1986 til 1994, leitaði lengi að heimildum um nafnið og kom í ljós að nafnið Gerpla er nánast nýyrðasmíð Halldórs Laxness, en í upphafi Gerplu segir hann svo: „…og munu vér af görpum draga nafn bókar vorrar, er hér saman stendur, og kalla Gerplu.“
Vöxtur Gerplu í Kópavogi hefur verið með hreinum ólíkindum síðustu ár og afrekalistinn er langur. Að baki liggur eldmóður frumherja og ómældur tími sjálfboðaliða sem staðið hafa þétt við bakið á iðkendum félagsins. Hjónin Jón Finnbogason, sem nú er formaður íþróttaráðs Kópavogsbæjar og Linda Björk Logadóttir, voru á meðal þeirra sem komu að uppbyggingu félagsins á fyrstu árum þess í Versölum. Við tókum Jón tali og báðum hann að rifja upp fyrstu tengsl sín við félagið.
Kynntist konunni í Gerplu

„Árið 2003 kom ég aftur til starfa hjá félaginu eftir hlé vegna náms og stjórnarsetu hjá Fimleikasambandi Íslands, en ég hafði æft fimleika frá 9 ára og fram að háskólanámi,“ segir Jón. Þátttöku hans í stjórn Gerplu lauk árið 2014 þegar hann snéri sér að bæjarmálunum hér í Kópavogi. „Við Linda Björk kynntumst í Gerplu þegar við vorum börn að æfa þar saman en á unglingsárunum fórum við að vera saman eins og gengur og gerist á þessum árum. Þó svo að ég hafi farið í stjórnina árið 2003 þá var Linda með mér í þessu því frítíminn fór í verkefni tengd Gerplu. Það atvikaðist síðar að hún fór að reka þjónustu með fimleikafatnað og fleira. Af þeirri ástæðu fór hún á öll fimleikamót og ég einnig þó svo að hlutverk okkar hafi verið ólík en um tíma voru öll börnin okkar fimm í félaginu. Það er reyndar ekki óalgeng jafna að pör finni sig saman í ólíkum hlutverkum í kringum fimleikana. Nefna má að góður samstarfsfélagi minn til margar ára, Kristján Erlendsson, fyrrverandi formaður Gerplu frá 1994 til 2006 og eiginkona hans, Elísabet Baldvinsdóttir, störfuðu bæði mikið fyrir félagið og höfðu mjög jákvæð áhrif á þróun þess. Einnig má nefna vini mína Hlín Bjarnadóttur og Guðmund Þór Brynjólfsson en þau þjálfuðu saman í félaginu til margra ára og mætti segja að fimleikalega hafi þau lagt grunninn að uppbyggingu félagsins á árunum um og eftir 2000 og í góðan áratug þar í kjölfarið. Einnig má nefna vini mína Björn Björnsson og Hrefnu Þorbjörgu Hákonardóttur sem bæði léku stórt hlutverk í velgengni Gerplu á sviði hópfimleika með fjölmörgum sigrum hérlendis og erlendis. Við þessa upptalningu má einnig bæta samstarfskonum mínum og vinkonum til margra ára þeim systrum Auði Ingu Þorsteinsdóttur og Ásu Ingu Þorsteinsdóttur en þær báðar eiga sennilega einna stærstan þátt í því hve vel gekk hjá Gerplu á þeim árum sem ég starfaði þar.“
Þröngt, skítugt en vinalegt
„Þó svo að fimleikaaðstaðan á fyrstu árunum hafi ekki verið í líkingu við það sem við þekkjum í dag þá var kannski annað sem kom í staðinn. Í grunninn var um að ræða iðnaðarhúsnæði við Skemmuveg 6 í Kópavogi sem var breytt í íþróttahús af kraftmiklum hóp sjálfboðaliða sem lögðu nótt við dag í verkefnið að breyta húsnæðinu. Þekkjast jafnvel sögur um að sumir hafi veðsett sínar eigin fasteignir til að tryggja málinu brautargengi. Við sem höfum fengið að stunda íþróttir í Gerplu í kjölfarið stöndum í þakkarskuld við þessa kraftmiklu brautryðjendur. Þetta var tíðarandinn á þessum árum. Bæjarbúar lögðu hart að sér við að útbúa íþróttaaðstöðu. Iðkendum fannst þeir auk þess eiga hlut í æfingahúsnæðinu enda ekki óalgengt að iðkendur og foreldrar voru kallaðir til í viðhaldsvinnu. Þegar við vorum að glíma við hinar miklu breytingar sem félagið gekk í gegnum á árunum 2006 til 2011, þegar við vorum kannski búin að ná í skottið á okkur, þá kom upp orðatiltæki sem lýsti vel þessum mun á aðstöðunni. Það var þannig að í „gömlu Gerplu“ eins og við orðuðum það, þá hafi verið „þröngt, skítugt en vinalegt“ en í „nýju Gerplu“ hafi verið „stórt, bjart en ópersónulegt.“ Það var svolítið eins og starfsemin hafi flutt en ekki félagið. Verkefnið var að breyta þessu viðhorfi sem gerðist fljótt þegar iðkendur fóru að gera aðstöðuna að sinni.“
Mikil gerjun
„Á fyrstu árunum eftir að ég kom í stjórn fór mikill tími í að undirbúa flutning félagsins af Skemmuvegi yfir í Versali. Það var mikil gerjun í gangi á þeim tíma í fimleikunum. Árangur af miklu uppbyggingarstarfi í áhaldafimleikunum var að byrja að koma fram og hópfimleikarnir voru að taka á sig mynd. Iðkendur voru um 700 þegar starfsemin flutti af Skemmuvegi yfir í Versali. Í dag eru þeir um 2.200 talsins. Eftir flutninginn yfir í Versali árið 2005 tók við mjög krefjandi tími. Ég tók við sem formaður og fljótlega eftir það kom Auður Inga Þorsteinsdóttir til starfa hjá félaginu sem framkvæmdastjóri. Það má segja að ótrúlegur tími hafi tekið við þar sem fjölgun iðkenda var gríðarleg sem og að við lögðum aukna áherslu á þjónustu við yngstu iðendurnar sem og þá sem eldri voru,“ segir Jón en fljótlega eftir að starfsemin í Versölum hófst tóku við breyttir tímar.
Fjöldatakmarkanir
„Með því að vera með starfsemina í sama húsi og glæsileg sundlaug með miklum fjölda gesta á degi hverjum, þar sem auðveldlega mátti sjá inn í fimleikasalinn, fór strax að bera á stöðugum beiðnum um að byrja í fimleikum. Við þessu þurfti að bregðast. Svo tók við mun umfangsmeira sumarstarf til þess að þjóna börnin í hverfinu með leikjaskóla. Þessi þróun hélt stöðugt áfram og leiddi í raun til þess að okkur var nauðugur sá einn kosturinn að setja fjöldatakmarkanir í starfi félagsins. Það var ekki hægt að halda áfram að taka endalaust við nýjum iðkendum. Sem betur fer horfir nú senn til betri vegar þegar Gerpla fær aðstöðu í nýju íþróttahúsi við Vatnsendaskóla. Það verður áskorun fyrir félagið að halda úti starfsemi á tveimur stöðum en ég er ekki í nokkrum vafa um að það mun takast vel upp enda starfið það fjölbreytt að vel má koma því við með góðri skipulagningu.“
Erfiðir tímar
Spurður um eftirminnileg atvik úr starfinu hjá Gerplu verður Jón alvarlegur í bragði. „Þetta er afar erfið spurning sem ég hef ekki fengið áður um þann tíma sem ég var í stjórn Gerplu. Henni verður því miður ekki svarað með öðrum hætti en að minnast þess atviks sem átti sér stað þegar einn af okkar ungu og efnilegu iðkendum, Jakob Örn Sigurðsson, veiktist skyndilega mjög alvarlega á æfingu þann 9. mars 2007 með þeim afleiðingum að hann lést. Hugur okkar allra var að sjálfsögðu fyrst og fremst hjá fjölskyldu Jakobs Arnars. Þetta atvik hafði að sjálfssögðu gríðarleg áhrif á alla sem komu að starfi félagsins og mótaði afstöðu okkar til fjölmargra þátta.“
Fyrstu Norðurlandameistaratitlarnir
Í kringum árið 2000 og rúmlega áratug síðar var sú staða í fimleikum á Íslandi sú að Gerpla sigraði svo að segja öll mót í öllum flokkum sem keppt var í hérlendis. Á sama tíma var árangur félagsins erlendis betri en nokkur sinni áður. „Taka má fjölmörg dæmi um eftirminnileg atvik en eftirminnilegust var helgin 14. og 15. apríl árið 2007 þegar Fríða Rún Einarsdóttir náði einstökum árangri á Norðurlandameistaramóti unglinga og kom heim með sex gullpeninga. Fríða Rún náði þeim ein-staka árangri að sigra í fjölþrautinni; sigra á öllum áhöldum og í liðakeppninni. Á mótinu varð Ísland í fyrsta skipti Norðurlandameistarar í áhaldafimleikum í liðakeppni enda með einstakt stúlknalandslið. Ég leyfi mér að fullyrða að þessum árangri Fríðu Rúnar verður ekki aftur náð. Þessa sömu helgi varð kvennalið Gerplu í hópfimleikum Norðurlandameistari í Stokkhólmi í Svíþjóð. Þetta var í fyrsta sinn sem íslenskt félagslið varð Norðurlandameistari í hópfimleikum. Fyrir Gerplu og fimleikana alla á Íslandi var þessi helgi sú besta í íslenskum fimleikum frá upphafi. Stúlknalið Gerplu í hópfimleikum sigraði svo síðar ítrekað bæði Norðurlandameistaratitil sem og Evrópumeistaratitil í sinni grein.“
Gerpla mun vaxa
„Ég sé fyrir mér að starf Gerplu mun halda áfram að blómstra á komandi árum. Það er erfitt að spá til um hver þróunin verður og ég vil ekki leggja kraftmiklum stjórnendum félagsins nú einhverjar línur um hvað gömlum formanni finnst að eigi að gera. Almennt hygg ég að félagið mun halda áfram á sömu braut og jafnvel að horfa fram á vöxt í íþróttum þar sem keppni er ekki aðal markmiðið. Stafar það af því að aldur iðkenda mun líklega vaxa samhliða almennri þróun um aukinn lífaldur. Framtíð félagsins er björt.“

