Paul McCartney Kópavogs lítur yfir farinn veg

Helgi Pétursson á góðviðrisdegi við Víghól þar sem hann sleit barnsskónum.
Helgi Pétursson fór á kostum í ræðu sinni hjá Sögufélagi Kópavogs á dögunum þar sem hann rifjaði upp bernskuár sín frá Digranesheiði.
Helgi Pétursson fór á kostum í ræðu sinni hjá Sögufélagi Kópavogs á dögunum þar sem hann rifjaði upp bernskuár sín frá Digranesheiði.

„Helgi Pétursson er Paul McCartney Kópavogs og Kópavogsbragur er okkar Yesterday,“ sagði fundarstjórinn áður en Helgi var kynntur í pontu. „Og malbikaði spottinn á Kársnesbraut er okkar Penny Lane,“ glumdi þá í fundargesti sem uppskar hlátur. Tónninn var sleginn enda sjaldnast húmorinn langt undan þegar Helgi Pétursson, Helgi í Ríóinu, Helgi okkar er annarsvegar.

Tilefnið var fundur Sögufélags Kópavogs um síðustu helgi sem fram fór í MK. Helgi var þar beðinn um að fara yfir æskuár sín frá Digranesheiði en hann ólst þar upp á árunum eftir 1955. Digranesið og Víghólasvæðið lifnuðu við í frásögn Helga; barnaskarinn sem þarna var, prakkarastrikin, ómalbikuðu göturnar, nágrannar og vinir.

Bekkurinn var þétt setinn eins og alltaf á viðburðum Sögufélags Kópavogs.
Bekkurinn var þétt setinn eins og alltaf á viðburðum Sögufélags Kópavogs.

Alltaf kallaður Helgi píka
„Við kölluðum okkur Holtara á þessum árum, krakkarnir sem ólust upp á svæðinu í kringum Víghól,“ sagði Helgi í ávarpi sínu. „Svæðið var einn hæsti punktur höfuðborgarsvæðisins og á mörkum hins byggilega heims. Þegar við fluttum þarna uppeftir árið 1956 var þarna ótrúlegur berangur og varla stingandi strá. Fyrst bjuggum við á Digranesvegi 53, síðan á Digranesvegi 75 og að lokum á Digranesvegi 117. Þó var þetta alltaf sama húsið. Þróunin var svona. Nú heitir þetta Digranesheiði en ekki vegur,“ sagði Helgi og uppskar hlátur. „Það voru mörg börn og margir líka sem hétu Helgi eins og ég. Til aðgreiningar var ég alltaf kallaður Helgi píka og það nafn festist við mig, illu heilli. Það var ekki fyrr en ég var kominn í Kennaraháskólann sem ég bað fólk að hætta að kalla mig þetta, sem gekk sem betur fer eftir.“

Vinirnir Samúel Guðmundsson, Ólafur heitinn Þórðarsson og Einar Magni. Myndin er tekin um 1960 skammt við gamla Digranesbæinn.
Vinirnir Samúel Guðmundsson, Ólafur heitinn Þórðarsson og Einar Magni. Myndin er tekin um 1960 skammt við gamla Digranesbæinn. Mynd: Helgi Pétursson, úr einkasafni
Horft austur eftir Digranesvegi í áttina þar sem nú er íþróttahús HK.
Horft austur eftir Digranesvegi í áttina þar sem nú er íþróttahús HK. Mynd: Helgi Pétursson, úr einkasafni
Helgi Pétursson fyrir örfáum árum. Mynd: Helgi Pétursson, úr einkasafni
Helgi Pétursson fyrir örfáum árum.
Mynd: Helgi Pétursson, úr einkasafni

Nágrannasamvinna
„Mér er það mjög minnistætt að þarna hjálpuðust allir að. Það þótti ekkert tiltökumál að hjálpa nágranna sínum að grafa grunn fyrir húsið sem hann var að byggja. Svona gekk þetta. Menn voru langt fram á kvöld með haka og skóflu að grafa grunna hvor fyrir aðra,“ segir Helgi en nágrannar hans voru í minningunni karlar í krapinu. „Þarna bjuggu merkilegir og duglegir menn sem voru á svipuðum aldri og sinntu mjög mismunandi störfum. Þeir áttu allir helling af börnum og ég man varla annað en alls konar uppátæki með fullt af krökkum, frá morgni til kvölds. Þessir menn, feður hverfisins, störfuðu sem sjómenn og bílstjórar sem þótti mjög flott. Þarna var líka rafvirki og verslunarmenn sem störfuðu hjá Fálkanum og Ellingssen. Í hverfinu bjó líka Andrés Kristjánsson, ritstjóri Tímans. Það þótti mjög mikil upphefð að ritstjórinn sjálfur bjó í hverfinu. Þorbjörn Sigurgeirsson, prófessor og heimsþekktur vísindamaður í kjarneðlisfræði, og Þórdís, kona hans, eru mér mjög minnistæð og auðvitað drengir þeirra fimm sem ég lék mér oft við.“

Haglabyssa og pólitík
Konurnar á Digranesheiði voru flestar heimavinnandi með brennandi áhuga á stjórnmálum. „Ég man að þær komu oft í heimsókn til mömmu og ég þurfti að fara út því það var svo mikill hávaði í þeim þegar þær ræddu pólitík. Þetta voru framsóknarkonur, kratar og kommar. Ég held að ég hafi verið 18 ára þegar ég sá fyrst sjálfstæðismann. Ég horfði á hann eins og hann væri eitthvað veikur. Svona var nú uppeldið og umræðan í kringum mig. Stöðug innprentun um fyrirlitningu á sjálfstæðismönnum,“ sagði Helgi og kímdi. „Við krakkarnir nutum mikils frelsis og fengum að vera nánast sjálfala. Samúel, vinur minn, hafði aðgang að haglabyssu og þegar við vorum einir heima fórum við að skjóta lóur út um stofugluggann. Auðvitað komst upp um okkur því húsið fylltist allt af púðurreyk. Við sluppum þó við mestu skammirnar enda orðnir rígfullorðnir, tíu ára.“

Skátar í skrúðgöngu á Digranesheiði, sumardaginn fyrsta eða 17. júní, í kringum árið 1960.
Skátar í skrúðgöngu á Digranesheiði, sumardaginn fyrsta eða 17. júní, í kringum árið 1960. Mynd: Helgi Pétursson, úr einkasafni.

Dökkir flekkir af rottum
Strákarnir voru sendir til vinnu um leið og þeir höfðu aldur til og Helgi fékk það starf að keyra traktor í frystihúsinu. „Ég var auðvitað ekki með nein réttindi, 12-14 ára gamall, og einhverntímann ók ég beint í gúanóhauginn þar sem maðkur og drulla hrundi yfir mig. Mamma tók á móti mér langt úti á götu og skipaði mér að fara úr öllum fötunum nema nærbuxunum því fnykurinn af mér var rosalegur. Það var nú reyndar dálítið áhugavert atvinnulíf þarna í dalnum nálægt þar sem Dalvegurinn er nú. Í næsta húsi við frystihúsið var lakkrísgerð og skammt þaðan frá var plastverksmiðja. Úrgangurinn úr þessum fyrirtækjum lak út í Kópavogslækinn. Sorphaugar voru þarna rétt hjá og þegar þeir voru að fyllast komu bæjarstarfsmenn og kveiktu í. Þá urðu kellingarnar í hverfinu brjálaðar því þær þurftu að rífa inn þvottinn því lyktin lagðist yfir allt. En við strákarnir fylgdumst með rottunum sem þarna voru. Það voru stundum dökkir flekkir af rottum hlaupandi þarna um sem var auðvitað algjörlega stórfenglegt,“ sagði Helgi og ekki laust við að margir í salnum könnuðust við þessar lýsingar. „Við vinirnir stóðum saman og héldum hópinn. Við lékum okkur í stillönsunum í Kópavogskirkju sem var verið að byggja og leiddumst í skólann töluverðan spotta í verstu veðrunum. Það var líka vissara að standa saman því annars gætu helvítis vesturbæingarnir ráðist á okkur. Það var nú ljóti skríllinn. En í heild var þetta yndisleg bernska. Hér var gott að alast upp. Það var frelsi til allra athafna og sem betur fer lifir þetta í minningunni í söng og gleði. Síðar bættist músíkin við.“

Helgi Pétursson við æskuheimili sitt að Digranesvegi 117.
Helgi Pétursson við æskuheimili sitt að Digranesvegi 117.

Umræðan

Fleiri fréttir

Aðventuhátíð Kópavogs

Aðventuhátíð í Kópavogi verður haldin með pompi og pragt, laugardaginn 30. nóvember. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri tendrar ljósin á jólatré Kópavogsbæjar við menningarhúsin við hátíðlega athöfn kl. 17. Jólasveinar bregða á

Fjárhagsáætlun samþykkt

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að lokinni seinni umræðu í vikunni Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun fyrir tímabilið 2026-2028. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að

Sóley heimsmeistari

Sóley Margrét Jónsdóttir varð í síðustu viku heims­meist­ari í kraft­lyft­ing­um með búnaði í +84 kg flokki og tryggði sér um leið réttinn til að keppa á Heimsleikunum (World Games) sem

Hættum keðjuverkandi skerðingum

Ég verð bara að segja eins og er að ég var kominn með bullandi ofnæmi fyrir ríkisstjórninni og sennilega var ríkisstjórnin einnig kominn með alvarlegt bráðaofnæmi fyrir sjálfri sér. Já,