Breiðablik ætlar að ná Perlubikarnum.
Sunnudaginn 8. júlí milli kl. 13 og 17 ætlar Breiðablik að reyna ná til sín Perlubikarnum svokallaða. Perlubikarinn hlýtur það íþróttafélag og/eða sveita/bæjarfélag sem nær að perla sem flest armbönd til styrktar Krafti á tilteknum tíma.
Með því að taka þátt í viðburðinum geta Blikar átt möguleika á að hreppa perlubikarinn. Í dag stendur metið í 2308 armböndum á fjórum tímum en það met settu Sunnlendingar 20. júní síðastliðinn. Nokkur félög eiga eftir að reyna við bikarinn og nú er bara að sjá hvaða íþróttafélag nær að perla sem mest á fjórum tímum.
Armböndin sem um ræðir eru í fánalitunum og eru þau seld til stuðnings Krafti og sýna einnig samstöðu með íslenska fótboltaliðinu á HM. Armböndin eru með áletruninni „Lífið er núna“ og eru auðveld í samsetningu svo að allir geta tekið þátt, börn sem fullorðnir.
Blikar; leikmenn og stuðningsmenn, eru hvattir til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni. Öll armböndin eru perluð í sjálfboðavinnu og því mikil hugsjón bakvið hvert armband. Allur ágóði af sölu armbandanna rennur til Krafts – stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur og er hægt að kaupa armböndin líka strax á staðnum.
Þetta er skemmtileg stund fyrir alla fjölskylduna og tilvalið tækifæri að láta gott af sér leiða og að sjálfsögðu verður heitt á könnunni!
KOMIÐ OG PERLIÐ AF KRAFTI ?