Píratar standa vaktina í umhverfismálum í Kópavogi

-Svar við aðsendri grein

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi.

Í síðasta tölublaði Kópavogsblaðsins birtist grein Margrétar Júlíu, fyrrverandi bæjarfulltrúa í Kópavogi. Yfirskriftin var „Enginn í bæjarstjórn stendur vaktina í umhverfismálum í Kópavogi“. Tilefnið var kaup bæjarins á nýjum bifreiðum fyrir starfsmenn í heimaþjónustu. Ég hugsaði með mér í dágóða stund hvernig best væri að svara. Inntakið var pólitískt, tilgangurinn augljós.

Hér gæti ég ritað ýmislegt. Ég gæti sagt að ég gagnrýndi vissulega umrædd bifreiðakaup í bæjarstjórn. Ég gæti bent á að loftlagsstefna Pírata fékk hæstu einkunn allra flokka samkvæmt úttekt loftslag.is fyrir síðustu Alþingiskosningar. Ég gæti rakið tillögu mína um að bærinn móti sér loftslagsstefnu og talið upp öll tilvik þar sem ég hef vakið athygli á ábyrgð bæjaryfirvalda þegar kemur að umhverfismálum. En hver væri ávinningurinn svo sem annar en augljósar flokkspólitískar ritdeilur – og hagnast bæjarbúar almennt af slíku? Það held ég varla. Ég gæti enn fremur fullyrt að óþarfi sé að hafa áhyggjur, en það væri rangt.

Sannleikurinn er sá að við eigum öll að hafa áhyggjur, umhverfis- og loftslagsmál eru ekki einkamál stjórnmálaflokka. Þau mega ekki vera það. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja það borgaralega skyldu okkar allra að gera það sem við getum að tryggja lífvæni umhverfis okkar, loftslags og náttúru.

Margrét Júlía skrifar:

„Þar sem ég hef nú ekki lengur aðkomu að bæjarmálum í Kópavogi vil ég skora á bæjarbúa alla að standa vaktina, ekki síst foreldra barnanna í bænum okkar.“

Ég tek heilshugar undir þessi orð Margrétar Júlíu. Þetta er mikilvægasta málefni samtímans og öllu máli skiptir að við gerum þetta vel. Mig skortir á engan hátt vilja til verksins né hugsjónir. Þvert á móti þá brenn ég fyrir málefninu.

Það er óhefðbundinn leikur að viðurkenna veikleika í stjórnmálum. En sannleikurinn er sá að ég er ný á þessum vettvangi og gæti sannarlega notað leiðsögn. Þú tiltekur, Margrét Júlía, að þú hafir ekki lengur aðkomu að bæjarmálunum, en mig langar að bjóða þér tækifæri til þess.

Píratar hafa nefnilega þá stefnu að auka aðkomu almennings að allri ákvarðanatöku og við tökum alltaf ábendingum og hugmyndum fagnandi, hvaðan sem þær koma. Með þinni reynslu og minni aðstöðu gætum við unnið saman að markmiðum okkar allra í umhverfismálum. Ég er ekki nema símtal í burtu, kaffið er heitt á könnunni og þú ert hjartanlega velkomin.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér