Pláneta A: Börn ræða umhverfis- og loftslagsmál

Eitt af verkefnum menntasviðs Kópavogsbæjar í tilefni 30 ára afmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er að ræða umhverfis- og loftslagsmál við börn, fræða þau um vísindalegar staðreyndir, heyra hvernig þau upplifa þær breytingar sem eru að eiga sér stað í heiminum og hlusta eftir þeirra aðgerðahugmyndum svo snúa megi hlutum til betri vegar. Af því tilefni var verkefninu Pláneta A hleypt af stokkunum, en það nær til nemenda í 8. bekkjum grunnskóla Kópavogs og felur í sér bæði fræðslufyrirlestra og fjölbreytta verkefnavinnu tengda málefninu.

„Tilraun til valdeflingar“

Sævar Helgi Bragason, eða Stjörnu-Sævar eins og hann er oft kallaður, heldur utan um verkefnið ásamt verkefnastjóra frá Menningarhúsunum í Kópavogi, og segir hann umfjöllunarefnið einstaklega víðfemt. Verkefnið snúist ekki bara um að hitta 8. bekkinga og fræða þá um náttúruvernd og loftslagsmál út frá heimi vísindanna, heldur einnig þá staðreynd að það sem er að gerast sé okkar mannanna verk og við þurfum öll að hjálpast að til að breyta því.

„Pláneta A er tilraun til að valdefla okkur sjálf, fræðast um og uppgötva þær aðgerðir sem við getum gripið til, og eins að fá vitneskju um hvað dugar og hvað dugar ekki,“ útskýrir Sævar Helgi. Hann segist einnig ræða við krakkana um hvað það sé sem í raun veiti okkur hamingju: „Er það neyslan, að eignast marga hluti, eða verja tíma með hvert öðru? Reyna á sig og hreyfa sig eða keyra á milli staða,“ spyr hann og bætir við að allar jákvæðar breytingar sem við gerum á lífsstíl okkar leiði bæði til meiri lífsgæða og betra samfélags – og því sé til mikils að vinna.

Börn deila upplifun sinni

Þórunn Erla Erlendsdóttir, Eiríkur Örn Beck og Arnar Elí Guðlaugsson eru nemendur í 8.bekk í Lindaskóla og voru fús að deila upplifun sinni á verkefninu eftir að hafa hlustað á Sævar Helga.

Þau voru öll hugsi yfir öllu plastinu sem við hendum og lýstu því hvert á sinn hátt hvernig myndband sem þau sáu um lítinn unga sem var búinn að borða plast hefði haft áhrif á þau, að þau hafi t.d. áttað sig á því að ruslflokkun væri mikilvægari en þau héldu – það hefði bara opnast fyrir eitthvað hjá þeim.

Arnar Elí Guðlaugssson, Eiríkur Örn Beck og Þórunn Erla Erlendsdóttir, nemendur í 8. bekk í Lindaskóla, ásamt Stjörnu-Sævari.

„Við erum að henda plasti í sjóinn og dýrin éta plastið. Við erum að meiða dýrin okkar og það er leiðinlegt að sjá dýrin með plast um hálsinn,“ segir Þórunn. „Við flokkum heima, mamma er mjög umhverfisvæn“. Hún segir að fólk ætti að hugsa meira um það sem það kaupir í matinn, hvernig plast við séum að nota og svo henda.

Eiríkur segir að það sé óþægilegt að hugsa um framtíðina, að þegar hann eignist börn þá verði þetta miklu meira mál og ef við gerum ekkert núna þá þurfi börnin hans að díla við þetta: „Við erum ekki að gera þetta bara við jörðina, við erum að gera þetta við okkur.“

Hvað er hægt að gera?

Þórunn Erla, Eiríkur Örn og Arnar Elí voru spurð hvað við getum gert til að minnka hlýnun jarðar. „Það sem fólk hendir kemur til baka, það skolast til baka úr sjónum,“ útskýrir Arnar. Hann bendir líka á að matarsóun sé vandamál og að hann þurfi líka að taka sig á þar; þó svo að síðasti söludagur sé á matvörunni þurfi það ekki að þýða að hún sé útrunnin. Svo geti hann líka fryst og nýtt þannig matinn seinna.

„Við eigum að hreyfa okkur meira, ganga og hjóla. Þú hefur ekkert nema gott af því að labba, sama i hvaða formi þú ert,“ útskýrir Eiríkur. „Einmitt,“ segir Arnar: „Eins og þegar ég fer til afa og ömmu, þá hugsa ég oft með mér að við gætum labbað eða hjólað. Það er þægilegt að fara á bíl en miklu betra fyrir umhverfið að labba.“

Þórunn bendir á að fólk ætti að nota strætó meira en bílana og að hún verði alltaf glöð þegar hún tekur strætó í gítartíma og sér að hann er fullur af fólki: „Við eigum að njóta meira og kaupa minna,“ segir hún.

Framtíðarlandið

Börnin voru spurð hvernig framtíðarlandi verður. „Við notum bílinn miklu minna, hjólum, löbbum, nýtum matinn betur og endurnýtum,“ segir Arnar. „Börnin okkar og barnabörnin kunna að flokka rusl og afganga heima hjá sér, endurnýta og hugsa vel um umhverfið. Það er betra að hugsa um þetta frá unga aldri því þá byrjar maður að hugsa hvað maður geti gert, hvernig maður geti nýtt hlutina og matinn betur og mengað minna.“

„Við kennum krökkunum snemma að flokka og ganga vel um jörðina,“ segir Eiríkur. „Byggjum gróðurhús, ræktum okkar grænmeti í garðinum og fleira.“

„Við eigum að byrja fyrr að kenna börnum umhverfis- og loftslagsmál, að hugsa vel um jörðina,“ segir Þórunn.

Aðspurð um hvað þeim finnist um þá staðreynd að vísindamenn hafi verið byrjaðir að vara við umhverfis- og loftslagshættum fyrir 30-50 árum segjast þau ekki skilja af hverju ekki var brugðist þá við strax. „Þetta snýst um alla, hvað allir geta gert, fyrir 30 árum var fólk kannski ekki að taka þetta til sín,“ segir Arnar.

Þau segjast öll ánægð með Plánetu A verkefnið og að það hafi verið flott að fá Sævar Helga til að fara í svona marga skóla og fræða nemendur því hann sé sérfræðingur á þessu sviði.

Hvað varðar lífsgæði þá segja krakkarnir þau snúast um samskipti. Þó svo að foreldrar vinni mikið þá vita þau að mamma og pabbi elski þau, sýni þeim áhuga og þau nái að verja meiri tíma með foreldrum sínum um helgar en á virkum dögum.  Þau eru bjartsýn fyrir framtíðina og segja að allt skipti máli sem gert er til að sporna við hlýnun jarðar. Við séum byrjuð að nota minna plast, hreyfa okkur meira og planta trjám; slíkt bjargi einhverju, en ekki öllu. Hvert skref skipti samt máli og lausnin þurfi að koma frá mörgum stöðum. Þau ætluðu öll að ræða þessi mál heima fyrir og athuga hvað þau og fjölskyldan öll gætu gert betur.

Sævar Helgi hefur fulla trú á verkefninu og krökkunum sem hann hittir. Hann var ánægður með samtalið, sér í lagi að heyra að krakkarnir ætluðu að tala um umhverfis- og loftslagsmál heima fyrir, hafa áhrif og vera fyrirmyndir. „Það skiptir mestu máli að þau taki umræðuna og leiti leiða til að bæta umhverfið,“ sagði Sævar Helgi að lokum.

Sýningaropnun Plánetu A

Verkefnið Pláneta A er tvíþætt, þar sem nemendum 8. bekkja er boðið á fræðslufyrirlestra og umræður með Stjörnu-Sævari og vinna í kjölfarið fjölbreytt verkefni tengd umhverfis- og loftslagsmálum. Þannig fá þeir tækifæri til að láta raddir sínar heyrast og koma skoðunum sínum á framfæri.

Glæsileg heildarsýning á verkum nemendanna verður opnuð á Náttúrufræðistofu Kópavogs þann 20. nóvember kl. 09:45, á alþjóðlegum degi barna og 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar mun bæjarstjórinn Ármann Kr. Ólafsson bjóða gesti velkomna og þeir Sævar Helgi Bragason og Andri Snær Magnason flytja ávarp. Nemendur úr öllum þátttökuskólum verða viðstaddir opnunina og má búast við fjörugum umræðum.

Verkefnastjóri Plánetu A er Ríkey Hlín Sævarsdóttir og segir hún þetta metnaðarfullt verkefni um mikilvægustu málefni samtímans sem skemmtilegt og gefandi hafi verið að taka þátt í. Snertifletir verkefnisins við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna séu margir og tengingin sterk: „Það er sérlega ánægjulegt að vera í þessu samtali við krakkana, heyra sjónarmið þeirra og vinna með þeim að lausnum.“

Fjölbreytt hátíðardagskrá verður í Menningarhúsunum í Kópavogi þann 20. nóvember og meðal annars boðið upp á smiðju þar sem gestum býðst að skrifa póstkort til bættrar framtíðar. Þar geti hver og einn sett á blað sínar hugmyndir að lausnum sem grípa verður til nú strax í umhverfis- og loftslagsmálum. „Hluti póstkortanna verður geymdur á Héraðsskjalasafni Kópavogs í 20 ár og vitjað aftur þann 20. nóvember 2039. Þá verður fróðlegt að sjá hvaða atriði lágu krökkum helst á hjarta í dag – og hvað hafi svo í raun breyst á þeim 20 árum sem þá verða liðin,“ segir Ríkey að lokum.

Sýningin Pláneta A mun standa yfir í anddyri Náttúrufræðistofu Kópavogs dagana 20. – 27. nóvember og verður öllum opin.

Umræðan

Fleiri fréttir

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs 2024 og var valið kynnt við hátíðlega viðhöfn í Tónhæð, húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs.  Elísabet Berglind Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og formaður lista- og menningarráðs, afhenti

Brugðist við vopnaburði barna og ungmenna

Flýta á innleiðingu forvarnarverkefnis í KópavogiTala opinskátt um ofbeldi í öllum grunnskólum, frístund og félagsmiðstöðvum barna Menntaráð Kópavogs fjallaði um viðbrögð og forvarnir vegna ofbeldis og vopnaburðar barna og ungmenna

Heitar umræður um merki Pírata

Á aðalfundi Pírata í Kópavogi um liðna helgi var ný stjórn félagsins kjörin. Fundurinn var haldinn samhliða aðalfundum Pírata í Reykjavík, Ungra Pírata og Pírata í Suðvesturkjördæmi líkt og í

Gatnaframkvæmdir hafnar í Vatnsendahvarfi

Framkvæmdir við jarðvinnu og lagnir í Vatnsendahvarfi eru hafnar. Til að halda upp á áfangann tók bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir fyrstu skóflustungu að götunni Hæðarhvarfi. Árni Geir Eyþórsson, framkvæmdastjóri Jarðvals

Gamlar fréttir úr sarpinum

Bókasafn Kópavogs
kfrettir_200x200
vef2-2
Gísli Baldvinsson
Kópavogsbær. Fannborg.
Kópavogsdagar2
Helga Hauksdóttir
WP_20140319_15_46_03_Pro
Donata H. Bukowska, ráðgjafi erlendra nema, skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar til bæjarstjórnar Kópavogs.