Reitur 13: Bæjarfulltrúi leiðréttur af verktökum

Skipu­lags­ráð Kópa­vogs­bæjar sam­þykkti á fundi sínum 14. mars sl. að vinnslu­til­laga að skipu­lagi á svoköll­uðum reit 13 á þró­un­ar­svæði á Kárs­nesi, sem nær til lóða við Bakka­braut 2 og 4, Bryggju­vör 1-3 og Þing­hóls­braut 77 og 79, verði grund­völlur að áfram­hald­andi vinnu við gerð deiliskipu­lags­til­lögu fyrir reit­inn. Í tillögunni er gert ráð fyrir að núverandi atvinnuhúsnæði á lóðunum víki og íbúðarhús rísi í þess stað. Vinnslu­til­lagan felur í sér að allt að 160 íbúðir verði byggðar á þessum reit í húsum sem verði 2-5 hæð­ir. Gert er ráð fyrir 0,75-1 bílastæði pr. íbúð og að u.þ.b. 90% þeirra verði í innbyggðum og niðurgröfnum bílageymslum. Við afgreiðslu skipulagsráðs lét Helga Hauksdóttir, Framsóknarflokki og formaður ráðsins, bóka að mikilvægt væri að tillagan yrði þróuð að tillit yrði tekið til athugasemda um of mikið byggingarmagn. Bergljót Kristinsdóttir, Samfylkingu, óskaði eftir að þrívíddarmódel yrði haft til sýnis fyrir almenning sem myndi henta vel til að gera sér grein fyrir raunútliti á svæðinu. Loks óskuðu Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, Pírötum, og Einar Örn Þorvarðarson, Viðreisn, eftir auknu samráði við íbúa og hasmunaaðila á svæðinu þar sem við blasi 43% aukning á byggingarmagni.

Reitur 13

Þrír eigendur eru að lóðum sem samanlagt mynda hinn svokallaða reit 13. Fyrirtækið Vinabyggð ehf, Hjálparsveit Skáta í Kópavogi (HSSK) og Kópavogsbær.

Þrír eigendur eru að lóðunum sem mynda hinn svkallaða reit 13 á Kársnesi. Hjálparsveit Skáta í Kópavogi, fyrirtækið Vinabyggð ehf og Kópavogsbær.

Forsaga þess sem hér er rakið er sú að í október 2017 kynnti Vinabyggð Kópavogsbæ hver framtíðarsýn þess væri um skipulag á lóðunum þremur á reit 13. Í þeirri framtíðarsýn fór Vinabyggð m.a. fram á að Kópavogsbær flytti félagsaðstöðu HSSK úr reit 13 og kæmi þeirri starfsemi fyrir á öðrum stað í bænum. Var það mat forsvarsmanna Vinabyggðar að starfsemi Hjálparsveitar Skáta ætti ekki samleið við þeirra áform um byggingu íbúða.

Síðar kom í ljós að skerða þurfti lóð HSSK til að koma Borgarlínunni fyrir og var því starfshópur skipaður til að hefja samningaviðræður við HSSK um að Kópavogsbær kaupi nýtt húsnæði í efri byggðum fyrir starfsemi HSSK og taki í staðinn yfir húsnæði sveitarinnar við Bryggjuvör 2 og Bakkabraut 4. Flutningur Hjálparsveitar Skáta í Kópavogi frá reit 13 á Kársnesi er sagður hlaupa á hundruðum milljóna króna eða um milljarð, samkvæmt heimildum Kópavogsblaðsins.

Deilskipulagslýsing Kópavogsbæjar frá 2016 gerði ráð fyrir um 160 íbúðum á reit 13. Þar var þó ekki gert ráð fyrir því að Borgarlínan færi um Borgarholtsbraut og niður á Bakkabraut, eins og nýjustu áætlanir gera ráð fyrir. Vegna fyrirhugaðrar legu Borgarlínu að byggðinni skerðist reitur 13 talsvert.

Theodóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn, segist þess fullviss að ef gert hefði verið ráð fyrir Borgarlínunni í deiliskipulagslýsingunni frá 2016 og ljóst hafi verið þá að skerða þyrfti reit nr. 13 þá hefði klárlega verið gert ráð fyrir færri íbúðum. „Vinnslutillagan frá Vinabyggð nú gerir ráð fyrir stækkun lóðarinnar til að koma fyrir áður fyrirhuguðu byggingarmagni. Það er gert með því að breyta lóðarmörkum, færa til hafnarkant eða steinkant til vesturs og bæta við 1700 m2 landfyllingu,“ segir Theodóra.

Fékk senda 6 blaðsíðna greinagerð

Undir lok síðasta árs sendu fulltrúar frá félaginu Vinabyggð sex blaðsíðna erindi á Theodóru þar sem þeir leitast eftir því að svara gagnrýni sem kom fram í umræðu hennar um reit 13 í bæjarstjórn nokkru áður. Afrit var sent á alla bæjarfulltrúa Kópavogs, á skipulagsráð og í stjórnsýslu bæjarins. Theodóra svaraði erindi Vinabyggðar á bæjarstjórnarfundi þann 22. mars sl. þar sem hún óskaði eftir því að reitur nr. 13 yrði sérstakt dagskrármál.

Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir, oddviti Viðreisnar í Kópavogi.

„Ég óskaði eftir því að reitur 13 færi aftur á dagskrá til þess að svara Vinabyggð, enda er það minn vettvangur fyrir mál af þessu tagi. Nú hef ég ekkert á móti samráði. Þvert á móti. Ég hef lagt sérstaka áherslu á samráð við íbúa. En bæjarfulltrúar verða hins vegar að geta átt eðlilegar umræðum á opnum fundum án þess að eiga von á að reynt sé að taka þá niður með þeim hætti eins og fulltrúi frá Vinabyggð gerði. Um bréfið sjálft má svo ýmislegt segja. Þar er beinlínis rangt farið með í mörgum atriðum, valin þar inn atriði og byggt á upplýsingum sem henta þeirra málstað. Hitt er, og ekki síður aðfinnsluvert, að ég man ekki eftir í minni 8 ára setu í bæjarstjórn að verktakafyrirtæki ráðist með jafn afgerandi hætti inn á verksvið kjörinna fulltrúa með rangfærslum og yfirgangi“ segir Theodóra. „Þetta bréfkorn þeirra er til þess fallið að hanna þeirra eigin söguskýringar eftir á og gera lítið úr vel undirbúnni og ítarlegri gagnrýni minni. Þeir ganga hér milli stjórnmálaflokka til að reka á eftir erindi sínu og krefjast þess að vera þátttakendur á upplýsingafundum bæjarins við íbúa. Við þurfum að staldra við og spyrja okkur hvort það sé eðlilegt að fjárhagslegir hagsmunir verktaka, sem eiga hluta þeirrar lóðar sem um ræðir, ráði för í samtali við bæjarbúa, sem hafa lýst skýrum vilja til minna byggingarmagns. Það er hlutverk Kópavogsbæjar að sinna samráði en ekki fyrirtækja sem hafa mikilla fjárhagslega hagsmuna að gæta. Og alls ekki þegar þeir geta ekki farið rétt með.“  

Einar Steindórsson, framkvæmdastjóri Vinabyggðar, segir í samtali við Kópavogsblaðið að líkt og fram hafi komið í bréfinu þá var hafi því verið ætlað að leiðrétta ákveðnar rangfærslur sem Theodóra hélt fram á opnum bæjarstjórnarfundi. „Skipulagsmál geta verið viðkvæm og þurfa að vera rædd af réttmæti, þekkingu og yfirvegun,“ segir Einar. „Það er sérstakt af kjörnum fulltrúa Kópavogsbæjar að vera misboðið þegar íbúar eða lóðarhafar benda á rangfærslur eða hvetja til réttari umræðu, í stað þess að svara henni efnislega sem hún hefur ekki gert eða getað gert enn.“

Theodóra segir erindið frá Vinabyggð vera sérstakt fyrir margar sakir og lýsi hugarheimi verktaka sem reka erindi í stjórnsýslu Kópavogsbæjar. Aðgengi verktaka að skipulagsyfirvöldum í Kópavogi virðist hafa verið full mikið, að sögn Theodóru. Hún telur að bæjarfulltrúar þurfi að geta átt eðlilegt samtal um þróun bæjarins án þess að eiga von á svona sendingum. „Af bréfi þeirra má skilja að ég hafi verið illa upplýst í umræðu minni um reit 13. Sannleikurinn er þó sá að ég lýsti því yfir að ég væri ósammála vinnubrögðunum og tillögunni sjálfri enda teygja menn sig mjög langt í að auka byggingarmagn, á lóð sem þeir hafa ekki sjálfdæmi um að skipulegga, þvert á vilja íbúanna. Þá hjóla menn í manninn, reyna að skrifa söguna upp á nýtt og breyta leikreglunum. Ég þekki vel mínar skyldur sem kjörinn fulltrúi í bæjarstjórn. Mér er líka fullkunnugt um að valdið sem mér hefur verið treyst fyrir kemur frá íbúum. Þessi bréfsending var skriðtækling inn í stjórnsýslu bæjarins, sem ætlað var að draga úr trúverðugleika mínum. Ég treysti því að fólk sjái í gegnum það. Það eru umfangsmikil skipulagsmál framundan á næsta kjörtímabili og við verðum að geta treyst á að bæjarstjórn sé með skýra framtíðarsýn og skapi traust og sátt í samfélaginu um þau verkefni með hagsmuni íbúa en ekki einstakra verktakafyrirtækja að leiðarljósi,“ segir Theodóra að lokum.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn