Rekstrarafgangur Kópavogsbæjar er jákvæður um 652 milljónir króna, samkvæmt hálfs árs uppgjöri bæjarins, en áætlað var að hann yrði 63 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum. Munurinn skýrist fyrst og fremst af rúmlega 400 milljóna króna gengishagnaði og um 105 milljóna króna tekjum vegna úthlutunar á byggingarrétti fyrstu sex mánuði ársins.
Uppgjörið var kynnt í bæjarráði í morgun og síðan sent Kauphöll Íslands.
Skuldir Kópavogsbæjar hafa lækkað um rúma tvo milljarða frá áramótum að því er fram kemur í uppgjörinu. Mikil áhersla hefur verið lögð á niðurgreiðslu skulda undanfarin misseri til að lækka vaxtagjöld og auka svigrúm í rekstrinum. Skuldahlutfall bæjarins, þ.e.a.s. skuldir á móti tekjum, hefur lækkað úr 206% um áramótin niður í 197% nú um mitt ár, að gefnum tilteknum forsendum, segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.