Tillagan Borg í mótun/Grænn miðbær var hlutskörpust í hugmyndasamkeppni um þverun Reykjanesbrautar ásamt byggð yfir og/eða við Reykjanesbraut auk tengingar fyrir vistvæna ferðamáta í svæðiskjarna í Smára.
Niðurstaða keppninnar var kynnt nýverið og verðlaunahöfum veittar viðurkenningar.
Bæjarstjórn Kópavogs átti frumkvæðið að hugmyndasamkeppninni sem samþykkt var einum rómi í bæjarstjórn 11.maí, 2021.
Hugmyndasamkeppnin var unnin í samvinnu Kópavogsbæjar og Arkitektafélags Íslands. Markmið Kópavogsbæjar með samkeppninni var meðal annars að styrkja svæðiskjarnann í Smára og efla tengsl á milli svæða innan kjarnans fyrir alla ferðamáta. Verðlaunatillögur verða aðgengilegar á vef Kópavogsbæjar.
Höfundar verðlaunatillögunnar eru ASK arkitektar ehf., Þorsteinn Helgason, arkitekt FAÍ, Jakob Jakobsson, arkitekt FAÍ, aðstoð veittu: Anna Margrét Sigmundsdóttir, arkitekt FAÍ og Páll Gunnlaugsson, arkitekt FAÍ.
Úr umsögn dómnefndar um verðlaunatillögu:
„Í tillögunni er Reykjanesbraut lögð í stokk á nær öllu samkeppnissvæðinu og þannig myndast fjöldi nýrra tenginga fyrir alla samgöngumáta og bætt hljóðvist. Fífuhvammsvegur og Skógarlind færast upp á yfirborðið og verða hluti nýs gatna[1]nets sem fléttar svæðin saman á áreynslulausan og sannfærandi hátt. Gert er ráð fyrir mikilli uppbyggingu meðfram stokki Reykjanesbrautar. … Hér er lögð fram hugrökk leið að því marki að skapa nýtt, mannvænt og spennandi miðbæjarumhverfi fyrir Kópavog. Inngrip í Reykjanesbraut eru mikil og munu gerbreyta öllu yfirbragði svæðisins.“
Dómnefnd var skipuð eftirfarandi aðilum: Hrafnkell Ásólfur Proppé, skipulagsfræðingur, formaður dómnefndar, fulltrúi Kópavogsbæjar Bergljót Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi, fulltrúi Kópavogsbæjar Hjördís Ýr Johnson, bæjarfulltrúi, fulltrúi Kópavogsbæjar Birkir Einarsson, landslagsarkitekt FÍLA og Hans-Olav Andersen, arkitekt FAÍ, MNA.