Fréttir frá Markaðsstofu Kópavogs:
Tryggingastofnun Ríkisins er nú að flytja starfsemi sína frá miðbæ Reykjavíkur á miðsvæði höfuðborgarinnar í Smárahverfinu, en stofnunin verður til húsa að Hlíðarsmála 11. Húsnæðið telur tæpa 2.600 fermetra á fjórum hæðum en meginstarfsemi Tryggingastofnunar verður á þremur hæðum. Starfsmenn stofnunarinnar eru nú um 110 talsins.
Ekki er langt síðan að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu flutti starfsstöð sína í Hlíðarsmára 1 og þá hefur Útlendingastofnun komið sér fyrir á Dalvegi 18 og Menntamálstofnun í Víkurhvarfi 3. Landsréttur var endurreistur í vesturbæ Kópavogs, að Vesturvör 2, þar sem Siglingastofnun og síðar Samgöngustofa voru til húsa og þá má einnig geta þess að Íslandsbanki flutti höfuðstöðvar sínar í nýja turninn við Smáralind á síðasta ári.
Það er af sem áður var þegar póstnúmerið 200 þótti ekki nógu gott fyrir ríkisstofnanir og t.d. er ekki langt síðan að Kópavogsbær sá ástæðu til að senda formlega kvörtun til Fjármálaráðueytisins og Fjármálaeftirlitsins vegna kvaða sem fram komu í auglýsingu fyrir nýtt húsnæði fyrir starfsemi FME, en þar voru póstnúmerin 101 til 108 tilgreind sem möguleg staðsetning.
Það er jákvæð þróun að stjórnendur ríkisstofnanna allra landsmanna skuli hafa áttað sig á því að stofnanir geti dafnað og skilað góðri þjónustu fyrir utan póstnúmerið 101. Kópavogsbúar taka fagnandi á móti nýjum fyrirtækjum og stofnunum og bjóða starfsfólk þeirra velkomið í Kópavoginn.