Rótarýfélagar um allan heim halda sérstaklega upp á daginn 23. febrúar en Rótarýhreyfingin var stofnuð á þeim degi árið 1905. Rótarýdagurinn er gjarnan notaður til að vekja athygli á starfsemi hreyfingarinnar, ekki hvað síst í nærsamfélaginu.
Rótarýklúbburinn Borgir í Kópavogi var stofnaður í janúar 2001 og hefur starfsemi klúbbsins verið blómleg alla tíð. Í klúbbnum eru um 75 félagar víðs vegar að úr samfélaginu í Kópavogi og fundar hann á fimmtudagsmorgnum í Safnaðarheimili Kópavogskirkju, Borgum. Klúbburinn hefur alla tíð miðað því að hafa kynjahlutfall í klúbbnum sem jafnast. Í gegnum tíðina hefur klúbburinn styrkt ýmiss konar starfsemi í bæjarfélaginu, svo sem Skólahljómsveit Kópavogs, Tónlistarskóla Kópavogs og Fjölsmiðjuna auk þess sem klúbburinn hefur verðlaunað þann nemanda í MK sem hefur hæsta meðaleinkunn í verklegum greinum í Hótel- og veitingaskólanum við útskrift.
Á núverandi starfsári klúbbsins hefur klúbburinn veitt alls 2 milljónum króna í styrki til nokkurra aðila, þ.e. Arnarskóla, Sjúkraþjálfunar Sunnuhlíðar, Líknarsjóðs Lindakirkju, Covax samstarfsins og Blóðbankans til kaupa á nýjum blóðbankabíl.
Umhverfismál eru klúbbnum hugleikin og hafa klúbbfélagar árlega tekið til hendinni í Borgarholtinu kringum Kópavogskirkju og tínt rusl af miklum móð enda mikilvægt að halda umhverfi okkar snyrtilegu og lausu við rusl. Eitt af nýrri verkefnum klúbbsins er svo skógrækt en klúbburinn hefur fengið úthlutað vænni landspildu við Selfjall þar sem gróðursetning er nú þegar hafin. Er það von klúbbfélaga að geta í framtíðinni setið í skjóli trjánna og notið náttúrunnar í veðurblíðunni.
Rótarýklúbburinn Borgir mun halda upp á Rótarýdaginn með því að taka inn fjóra nýja öfluga félaga í klúbbinn og styrkja þar með enn frekar það góða starf sem fram fer á vegum klúbbsins.