Hörðuvallaskóli sigraði með miklum yfirburðum á Norðurlandamótinu í skólaskák, yngri flokki, sem haldið var í Osló í síðasta mánuði. Þess má geta að þeir unnu bæði Íslandsmeistaratitil í barnaskólaflokki (1.-7. bekkur) og grunnskólaflokki (8.-10. bekkur) síðastliðið vor og gátu því valið hvorn flokkinn þeir fóru í. Strákarnir höfðu tryggt sér sigurinn eftir fjórar viðureignir en á endanum fengu þeir 16,5 af 20 vinningum sem voru í boði.
Sveitina skipuðu Vignir Vatnar Stefánsson, Stephan Briem, Sverrir Hákonarson og Arnar Milutin Heiðarsson. Varamenn voru Óskar Hákonarson og Benedikt Briem en liðsstjóri var Gunnar Finnsson. Þeir Vignir, Sverrir og Arnar fengu allir borðaverðaun en þeir unnu allar sínar skákir í mótinu. Álfhólsskóli, sem varð í 2. sæti í grunnskólaflokki, tók sæti þeirra í eldri flokki í Osló og varð í 3. sæti.