Sundlaugarnótt haldin í fyrsta sinn
Safnanótt í Kópavogi hefur aldrei verið eins fjölbreytt og áhugaverð og í ár. Dagskráin fer fram í menningarhúsum bæjarins föstudaginn 6. febrúar á menningarholtinu, þar sem eru meðal annars Salurinn, Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa Kópavogs og Bókasafn Kópavogs. Dagskráin í húsunum hefst kl. 19:00 og stendur yfir til miðnættis. Aðgangur er ókeypis.
Daginn eftir verður sundlaugarnótt haldin í fyrsta sinn í Kópavogi en þá verður Sundlaug Kópavogs opin til miðnættis. Ókeypis verður í laugina og boðið upp á skemmtiatriði og tónlist af ýmsu tagi. Skemmtiatriðin á sundlauganótt í Sundlaug Kópavogs hefjast klukkan 20.30 og lýkur um 23.00. Ókeypis verður í laugina frá klukkan 18.00.
Meðal þess sem boðið verður upp á Safnanótt eru tilraunakenndar vinnustofur fyrir ungt fólk í Gerðarsafni, leiðsögn um listaverkageymslur safnsins, föndursmiðjur, töfrabrögð og spákonu í Bókasafni Kópavogs og örtónleika í anddyri Salarins.
Í Náttúrufræðistofu Kópavogs fer fram kynning á því hvernig dýr eru stoppuð upp en í safninu má finna fjölda uppstoppaðra dýra.
Í Héraðsskjalasafni Kópavogs verður sögusýning um bæinn og í Tónlistarsafni Íslands verður harmonikkuleikur.
Í Gerðarsafni verður pop-up eldhús þar sem hægt verður að setjast niður og njóta veitinga.
Menningarhús Kópavogsbæjar hafa undanfarin ár tekið Safnanótt með trompi og árið í ár er engin undantekning. Allir ættu að gefa fundið eitthvað við hæfi. Kosturinn við Safnanóttina í Kópavogi er sá að þar eru öll safnahúsin í göngufæri og því hægt að njóta ólíkra viðburða og safna á einum og sama staðnum. Svo er hægt að setjast niður í pop-up eldhúsi Gerðarsafns og njóta góðra veitinga,“
segir Arna Schram, forstöðumaður Listhúss Kópavogsbæjar.
Safnanótt og sundlauganótt eru hluti Vetrarhátíðar sem fram fer á höfuðborgarsvæðinu frá fimmtudeginum 5. febrúar til sunnudagsins 8. febrúar. Markmið safnanætur er að kynna það áhugaverða starf sem fram fer í söfnum bæjarins allan ársins hring. Sundlauganótt hefur verið að festa sig í sessi sem hluti af Vetrarhátíð og taka nú fjölmargar sundlaugar þátt, bjóða upp á dagskrá og hafa opið til miðnættis.
Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á heimasíðu Kópavogsbæjar, www.kopavogur.is