Fjölbreytt dagskrá verður í safna- og menningarhúsum Kópavogs að kvöldi dagsins 7. febrúar. Húsin verða opnuð upp á gátt til miðnætis. Tilefnið er Safnanótt sem haldin er í samstarfi allra safna á höfuðborgarsvæðinu. Í Gerðarsafni verður meðal annars listasmiðja og leiðsögn um sýninguna Íslenska teiknibókin. Í Náttúrufræðistofu Kópavogs verður fræðsluerindi um næturdýr. Í Molanum verður meðal annars tískusýning, í Héraðsskjalasafni Kópavogs verða sýndar gamlar kvikmyndir frá Kópavogi og í Tónlistarsafni Íslands verður leikin tónlist frá stríðsárunum.
Tilgangur Safnanætur er að vekja athygli á því fjölbreytta og áhugaverða starfi sem fram fer í söfnum höfuðborgarsvæðisins. Þetta er í tíunda sinn sem Safnanóttin er haldin og í fimmta sinn sem Kópavogsbær tekur þátt í henni.
Frítt er inn á alla viðburði.
Aðsóknarmet var slegið á Safnanótt í Kópavogi í fyrra og myndaðist skemmtileg stemning á menningarholtinu okkar. Lítið mál er að leggja bílnum í bílastæðahúsinu beint á móti safnahúsinu og nota tvo jafnfljóta til að ganga á milli húsanna og njóta þeirrar fjölbreyttu dagskrár sem þar verður að finna.
Nánari upplýsingar eru á kopavogur.is