Í Kópavogi er til félag Sauðfjáreigenda. Og, það sem meira er, það varð 60 ára nýverið. Þetta sætir tíðindum.
Út er komið ritið Sauðfjárbúskapur í Kópavogi, eftir Dr. Ólaf R. Dýrmundsson, sem varpar ljósi á þetta stórmerkilega félag og sauðkindina í Kópavogi. Ritið er hið fimmta í röð smárita Sögufélags Kópavogs og Héraðsskjalasafns Kópavogs. Það geymir sögu sauðfjárbúskapar í Kópavogi á 20. og 21. öld. Fjallað er um fjallskil í nánd þéttbýlis, lögskilaréttir, fjárskipti, sauðfjárstríð í Reykjavík, hrútasýningar, sauðfjárböðun, uppgræðslu, öflun heyja og fjármörk. Sauðfjáreigendafélag Kópavogs hefur gegnt lykilhlutverki í þessari atburðarás í 60 ár og er ritið því einnig saga þess.
Fróðleikur sem ekki liggur á lausu
Í bókinni er fróðleikur sem ekki liggur á lausu annarsstaðar um sögu sauðfjárbúskaparins í Kópavogi ásamt staðfræði sem ekki býr að jafnaði lengur í huga manna nema þeirra sem sjálfir fóru í göngur og leitir á svæðinu, örnefnakort er í ritinu. Saman við þetta fléttar Ólafur frásagna- og endurminningakafla, örsögur, m.a. af Jóni í Digranesi sem bjargaðist af flæðiskeri í Fossvogi. Í viðbæti er félagaskrá Sauðfjáreigendafélags Kópavogs frá 1957-2017 auk nafna fjáreigenda í Kópavogi sem ekki áttu aðild að félaginu.
Útgáfuhóf
Í tilefni útgáfunnar var haldin samkoma í Héraðsskjalasafninu að Digranesvegi 7 þar sem hittust nokkrir fyrrverandi og núverandi sauðfjáreigendur auk fulltrúa útgefenda ritsins. Þarna voru fulltrúar frá lögbýlunum að Fífuhvammi og Vatnsenda, frá nýbýlunum Grænuhlíð og Snælandi og nokkrir aðrir sem haldið hafa fé í Kópavogi. Formaður Fjáreigendafélags Reykjavíkur sótti og samkomuna. Héraðsskjalavörður Kópavogs,Hrafn Sveinbjarnarson, sagði meðal annars í upphafsávarpi sínu:
„Þegar vel er að gáð gegnsýrir sauðfjárbúskapur íslenska menningu. Kristindómurinn, höfuðátrúnaður Íslendinga í yfir þúsund ár, er ættaður frá sauðfjárbændaþjóðum og hefur því skírskotanir og þankagang sem fellur í góðan jarðveg meðal annarra sauðfjárbændaþjóða eins og Íslendinga. Við greinum sauðina frá höfrunum og ímynd hins samviskusama og besta manns er góði hirðirinn, þannig samsömuðu kindakarlarnir forfeður okkar sig prestinum og þótti þeim og prestinum sómi að.“
„Menning okkar er sauðfjármenning“
„Við eigum það Rómverjum sameiginlegt að peningur er búfé – pecus í eintölu og orðið í fleirtölu þýðir aurar eða peningar – pecunia. Þetta vill gleymast nú á öld barnamálsins þegar fólk talar um pening þegar það á við peninga. Fjármálamenn hafa áhyggjur af því hvort fyrirtækin geri í blóðið sitt, ég þæfi hér lopann og svona mætti lengi telja. Menning okkar er sauðfjármenning. Hvarvetna í landinu eru menjar og minningar um sauðfjárbúskap. Yngri kynslóðinni þykir ef til vill fjarstæðukennt að lagðprúðar ær af Meltungukyni og stæðilegir og vel lærðir hrútar hafi eitt sinn verið þar sem nú er malbik og fjölbýlishús í Kópavogi. Nauðsynlegt er að gera þessu skil þannig að uppruninn gleymist ekki í bílaþoku og hávaða þéttbýlisins.“
Smárit
Fram kom í máli héraðsskjalavarðar að þeir Þórður Guðmundsson kennari og formaður Sögufélags Kópavogs hefðu rætt við Sigurð Skúlason skógarvörð frá Snælandi um sögu búfjárhalds í Kópavogi og hefði Sigurður fengið Ólaf Dýrmundsson til þess að semja þetta rit. Útgáfu og umbrot ritsins annaðist Símon Hjalti Sverrisson. Bókin var prentuð hjá Svansprenti.
Hin smáritin í ritröðinni eru:
1. Minningar af Kársnesi eftir Eyþór Sigmundsson og Helgu Sigurjónsdóttur. 2012.
2. Kampar í Kópavogi. Herbúðir bandamanna í landi Kópavogs og næsta nágrenni eftir Friðþór Eydal. 2013.
3. Vatnsendi. Úr heiðarbýli í þétta byggð eftir Þorkel Jóhannesson 2013.
4. Landnemar í Kópavogi eftir Leif Reynisson 2016.
Þeir sem áhuga hafa á að nálgast þessi rit er bent á Héraðsskjalasafn Kópavogs sem er til húsa að Digranesvegi 7 (gamla pósthúsið). Einnig er hægt að skrá sig í Sögufélag Kópavogs á vefsíðu félagsins www.vogur.is og í Héraðsskjalasafninu.