Aukinn kraftur hefur verið settur í lagningu ljósleiðarans í Kópavogi í samræmi við samstarfssamning Kópavogsbæjar og Gagnaveitu Reykjavíkur, sem undirritaður var nýverið. Fyrir áramót var lokið við að tengja Salahverfið en stefnt er að því að öll heimili geti tengst ljósleiðara fyrir lok ársins 2017. Í byrjun árs 2015 stóð ljósleiðaravæðing bæjarins þannig að um 3.300 heimili voru orðin tengd við ljósleiðarann. Átak síðasta árs skilaði því hinsvegar að nú eru um 8.000 heimili í bænum tengd.

Vinna hefur staðið yfir í Smárahverfinu sem er búist við að klárist í febrúar. Gert er ráð fyrir að í lok árs verði um 2.700 heimili til viðbótar tengd. Það þýðir að um 84% allra heimila í Kópavogi geta tengst ljósleiðaranum. „Við erum ánægð með að koma Kópavogsbæ í fremstu röð bæjarfélaga í fjarskiptum enda mun aukin snjallvæðing heimilanna auka þörfinni á öflugu og hraðara netsambandi. Þess má geta að allir nýir viðskiptavinir Ljósleiðarans fá búnað sem ræður við 1Gb/s gagnahraða,“segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur.