Samfylkingin í Kópavogi skorar á bæjarstjórn Kópavogs að fylgja frumkvæði Akureyrarbæjar og hefja strax viðræður við félags- og húsnæðismálaráðherra um móttöku bæjarins á flóttamönnum. Í tilkynningu frá flokknum segir að óásættanlegt sé að næst stærsta sveitarfélagið á landinu hafi aldrei tekið á móti flóttamönnum, en bærinn hefur alla burði til að veita flóttamönnum þau tækifæri og lífsgæði sem þau þurfa á að halda.
Tilkynning Samfylkingarinnar í Kópavogi er svohljóðandi, en afrit af henni hefur verið sent til Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra Kópavogs:
„Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að taka á móti fimmtíu flóttamönnum á þessu og næsta ári til að létta á miklum straumi flóttamanna til Evrópu. Þrátt fyrir að talan sé lág ber að fagna því að ríkisstjórn Íslands axli ábyrgð og sé tilbúin til þess að taka þátt í því að veita fólki í mikilli neyð ný og betri lífsskilyrði hér á landi.
Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa þegar lýst yfir vilja til þess að taka á móti flóttafólki og greiða þannig fyrir því að skapa því betra líf og hefur bærinn óskað eftir viðræðum við velferðarráðuneytið um málið.
RÚV hefur eftir Theodóru S. Þorsteinsdóttur, formanni bæjarráðs Kópavogs, að slíkt hafi ekki verið rætt í bæjarstjórn Kópavogs, beðið sé eftir því að ráðuneytið hafi samband.
Samfylkingin í Kópavogi skorar á bæjarstjórn Kópavogs að fylgja frumkvæði Akureyrarbæjar og hefja strax viðræður við félags- og húsnæðismálaráðherra um móttöku bæjarins á flóttamönnum. Óásættanlegt sé að næst stærsta sveitarfélagið á landinu hafi aldrei tekið á móti flóttamönnum, en bærinn hefur alla burði til að veita flóttamönnum þau tækifæri og lífsgæði sem þau þurfa á að halda.“