Það er ánægjulegt að sjá að brátt sér fyrir endann á fyrri hluta Arnarnesvegar. Þetta er ótrúlega mikilvæg samgöngubót fyrir íbúa Kópavogs sérstaklega í efri byggðum. Við erum öll farin að finna meira og meira fyrir auknum umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu og er því hver aukin vegarstubbur eða breikkun mikil samgöngubót. Bæjarráð Kópavogs ályktaði þann 15.09.2016 að ljúka yrði seinni hluta Arnarnesvegar sem er tenging við Breiðholtsbraut hið fyrsta. Þetta væri að okkar mati ein brýnasta samgöngubótin á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til umferðaröryggis og fjölda bíla.
Það voru mikil vonbrigði að sjá að þessi vegastubbur var ekki einu sinni á þriggja ára samgönguáætlun ríkisins og auk þess lýsti vegamálastjóri því yfir að þetta verkefni væri ekki nægilega brýnt til þess að komast á forgangslista næstu þriggja ára. Þessu eru auðvitað allir Kópavogsbúar ósammála. Hver og einn bæjarfulltrúi hafði samband við sína þingmenn í kjördæminu en án árangurs. Það er þrautfúlt að þurfa að keppa við vegaframkvæmdir á landsbyggðinni en stundum er eins og samgöngur og úrbætur þess eðlis séu einkamál landsbyggðarinnar.
Það er ánægjulegt að segja frá að Kópavogur stendur vel hvað varðar mönnun á leikskóla. Því var það furðulegur fréttaflutningur sem við blasti þegar upp komst um að
Reykjavíkurborg átti við mikla starfsmannaeklu að etja í leiksskólum borgarinnar. Staðbundið starfsmannavandamál í einum leikskóla vegna langtímaveikinda var allt í einu orðin meira vandamál heldur en vöntun á 71 stöðugildi hjá borginni. Hins vegar stöndum við sem og önnur sveitafélög frammi fyrir því að möguleiki er á að mikill skortur verði á menntuðum leikskólakennurum í framtíðinni. Vandinn er margþættur. Ekki nógu margir ljúka námi og skipta jafnvel yfir í annað nám. Atvinnuleysi hefur dregist mikið saman og aukið framboð atvinnu verður til þess að umönnunarstörf, sem eru erfið vinna, verða ekki eins aðlaðandi. Sveitafélög þurfa því að huga að framtíðinni hvað þetta varðar. Ekki viljum við að það sé regla frekar en undantekning að börn séu send heim vegna starfsmannaskorts. Launakjörin eru vitanlega rauður þráður í þessum vanda og er okkur þröngur stakkur þar búinn.
Kannski er komin tími á óhefðbundnar leiðir til að létta á starfsmannaeklu hverju sinni eða mögulega þarf nýr menntamálaráðherra að endurskoða nám til réttinda leikskólakennara.