Samkór Kópavogs fagnar 50 ára afmæli sínu á þessu ári en þann 18. október 1966 stofnuðu söngglaðir og framsýnir Kópavogsbúar kórinn. Á meðal stofnfélaganna var Jan Morávek sem stjórnaði kórnum uns hann féll skyndilega frá árið 1970. Jan Morávek var af tékkneskum ættum en alinn upp í Vínarborg. Hann var afar metnaðarfullur og hæfileikaríkur tónlistamaður og lagði sterkan grunn að því öfluga og góða söngstarfi sem ríkt hefur hjá kórnum æ síðan. Fyrsti formaður kórsins var Valur Fannar sem jafnframt var einn af stofnendum hans. Í áranna rás hefur Samkórinn komið fram við hin ýmsu tækifæri, haldið árlega tónleika í Kópavogi og farið í fjölda söngferða bæði innan- og utanlands, m.a. heimsótt alla vinabæi Kópavogs á Norðurlöndunum.
Fyrirhugað er að halda veglega upp á 50 ára afmæli Samkórsins. Kórinn stefnir á að koma fram sem oftast og víðast á afmælisárinu. Auk þess að syngja fyrir Kópavogsbúa þá mun kórinn einnig halda í ferðalög á árinu. Í lok apríl er fyrirhuguð söngferð á Snæfellsnes og í lok júlí mun kórinn halda á Íslendingaslóðir í Kanada þar sem hann mun taka þátt í hinni árlegu Íslendingahátíð í Gimli og verður þar aðal kórinn á hátíðinni. Í október verða haldnir veglegir afmælistónleikar og stefnt er að jólatónleikum á aðventu.
Stjórnandi Samkórsins frá árinu 2013 er Friðrik S. Kristinsson og núverandi formaður er Birna Birgisdóttir. Í kórnum eru nú um áttatíu félagar og hafa þeir aldrei verið fleiri.
Heimasíða Samkórs er hér.