Verður þetta nokkuð viðtal þar sem við þurfum að svara hvað sé uppáhalds appið okkar eða hvaða síma við notum?“ Stelpurnar líta á blaðamann rannsakandi augum.
-Ekki séns, segi ég, nýkominn inn úr dyrunum og tek upp glósubókina. Hófí er að baka smákökur. Úti er skítkaldur desember og það er stormur.
Hvernig síma notið þið og hvað er uppáhalds appið ykkar?
„Hey, þú lofaðir!“ segja þær Greta og Hófí einum rómi og skella upp úr. Þær voru að láta drauminn rætast, gefa út plötu sem er búin að eiga langan aðdraganda. Talið fer út um víðan völl. Um bernskuna við Álfhólsveg, Víghólinn, fótboltaferilinn, ÍK, Breiðablik, foreldra þeirra þau Ástu B. Gunnlaugsdóttur og Samúel Örn Erlingsson; um vini þeirra, jólahefðirnar, um plötuna sem þær eru að gefa út, um gildi þess að standa með sannfæringu sinni, vera trúr manni sjálfum, fylgja hjartanu og láta hlutina gerast. Stíga inn í ótta og framkvæma. Þær eru samrýndar syst-ur en dálítið ólíkar. Hófí, sem er eldri, er aðeins meira til baka en Greta sem lætur móðann mása:
„…jólabarn, skreyta, stundum þreytt, frekar vera heima, jólaboð, kallinn minn er ekkert eins mikið jólabarn og ég,“ skrifa ég eftir henni og rétt næ að skjóta að spurningu:
Eruð þið báðar jafn mikið fyrir jólin?
„Já, við höldum fast í sömu hefðir og við vorum aldar upp við,“ segir Hófí og bætir því við að hún hélt að hún væri mikið jólabarn áður en hún kynntist tengdaforeldrum sínum. „Þar á bæ eru jólin tekin alla leið og meira segja tekið þátt í jólakökukeppni og hvaðeina,“ segir hún og býður blaðamanni smákökur og mjólk.
Hvernig voru fyrstu jólin ykkar í Kópavoginum?
„Árið 1993 eða 94 héldum við fyrstu jólin á Álfhólsvegi 114 þar sem við vorum öll fjögur saman,“ svarar Hólmfríður sem segist oftast muna öll ártöl. „Þetta voru líka „bestu jólin“ hefur pabbi alltaf sagt en „verstu jólin“ segir mamma. Hann var líka bara að keyra út kort og pakka með okk-ur á meðan mamma sá um allt matarstússið. Það hefur jafnast út í seinni tíð. En við eigum okkar föstu hefðir eins og rækjukokteillinn í forrétt sem klikkar aldrei, þó mamma muni aldrei – á hverju einasta ári – hvernig hún fór að því að búa hann til í fyrra,“ segja stelpurnar og það er stutt í hláturinn. „Við eigum algjörlega fasta hefð á Þorláksmessu sem er að borða skötu hjá ömmu okkar, Gretu Bjarnadóttur, sem býr rétt hjá foreldrum okkar á Álfhólsvegi. Það er eitthvað einstakt hvernig amma matreiðir skötuna, hún er alveg ótrúlega góð,“ segir Greta og bætir því við að fjölskyldan borði alltaf uppáhalds mat sinn á aðfangadag. „Það er breytilegt hvað er í matinn á aðfangadag og við erum óhrædd við að prófa nýjungar, svo lengi sem það er uppáhalds matur allra.“
Þið veljið þennan tíma til að gefa út fyrstu plötu ykkar, af hverju núna?
„Af því það var kominn tími til. Núna eða aldrei,“ segir Hófí og Greta bætir við. „Við erum yfir okkur sælar að hafa látið loksins verða af þessu. Þetta verður aldrei frá okkur tekið. Platan er komin út. Hún er þarna og við erum ótrúlega stoltar af henni. Hófí er búin að vera að semja lög frá því hún fékk fullorðinstennur og samdi meðal annars mörg stuðningslög Breiðabliks þegar hún var yngri. Þessi hæfileiki Hófíar var nýttur við ýmis tilefni og sungum við frumsamin lög og texta í söngkeppnum og á alls konar uppákomum. Fyrir nokkrum árum gerðum við útgáfu okkar af laginu Ó María sem naut mikilla vinsælda. Þá var ég 18 ára og Hófí rétt yfir tvítugt. Við vorum ekki tilbúnar að fylgja þeim vinsældum eftir því önnur verkefni höfðu þá forgang eins og fótboltaferill og háskólanám og búseta erlendis. En við vorum alltaf hvattar til að nýta þetta tækifæri. Hófí skellti sér í söngnám og samdi fullt af tónlist sem urðu bara að fá að verða til,“ segir Greta og bætir við að af 16 lögum á plötunni hafa 7 töluvert hljómað í útvarpi og nokkur notið mikilla vinsælda.
Hvað drífur ykkur áfram?
„Það er einhver innri þörf að gera það sem maður er fæddur til að gera,“ segir Hófí. „Ég starfa sem kennari og hef þjálfað knattspyrnu í mörg ár. Í fyrra vann ég bæði við umsjónakennslu og og þjálfun tveggja stórra flokka hjá Breiðablik auk þess að koma fram og syngja með Gretu. Ég lagði á mig tvöfalda vinnu til að gefa út þessa plötu. Þetta er árangur erfiðisins og uppskeran. Draumurinn sem ég var alltaf dálítið feimin við að gangast við. Að semja lög, gefa þau út og koma fram sem tónlistarkona með ótrúlega hæfileikaríku tónlistarfólki. Það er ótrúlega gott að koma úr skelinni með þetta og standa með þessu verkefni.“
—
Hljómsveitin SamSam var stofnuð af systrunum Hófí og Gretu Mjöll og er nafnið dregið af föðurnafnið þeirra enda eru þær Samúelsdætur. Systurnar hafa sungið saman frá blautu barnsbeini en láta nú drauminn loks rætast með plötuútgáfu SamSam.
1. Someday
„Þetta lag er um forboðna ást.
2. House
„Lag um hús og hamingju“
3. My favorite part
„Lag um að láta drauma sína rætast.“
4. Awesome
„Fjallar um tilfinninguna að vera ótrúlega skotin.“
5. Possibly probably
„Ást við fyrstu sýn?“
6. Echos of my mind
„Dramatískt systralag. Upp-
áhaldslag margra á plötunni.“
7. I love you I
„Að elska sjálfan sig og líka morgunfúla manninn sinn.“
8. Eiffel tower
„Að flýja það að fullorðnast og nenna ekki hversdagsleikanum. Væri ekki gaman að skoða bara Eiffel turninn?“
9. My goodbye
„Lag um sambandsslit, trega og að sleppa takinu.“
10. After this song
„Eurovisionlagið, flutt á ensku. Lag eftir Ástu Björg Björgvinsdóttur. Bergrún Íris Sævars-
dóttir gerði textann.
11. Creatures and critters
„Að vera týndur í sjálfum sér. Maður skapar sína eigin hamingju en þarf að finna leiðir til að finna hana.“
12. Ástarljóð
„Samið fyrir brúðkaup og við og aðrir höfum flutt það nokkuð oft við það tilefni.“
13. Súkkulaði
„Fjallar um ástina í lífi okkar. Súkkulaði.“
14. Ó María
„Þetta lag eftir Óla Gauk fær hörðustu sjóara til að vökna um augu. Textinn er eftir Óla en lagið er eftir Hófí. Margir höfðu ekki heyrt hvað textinn er í raun sorglegur.“
15. Desember
„Fallegt jólalag að deila jól-
unum með þeim sem manni þykir vænt um.“
16. Eftir eitt lag
„Eurovision lagið á íslensku. Lag um að hugur og hjarta fylgjast ekki allftaf að.“