Fjórða árið í röð vinna bæjarfulltrúar sameiginlega að gerð fjárhagsáætlunar hér í bæ. Verkefnið er krefjandi þar sem blikur eru á lofti í efnahagsmálum þjóðarinnar. Gert er ráð fyrir um 553 m.kr. afgangi af rekstri bæjarins. Forsendur fjárhagsáætlunarinnar eru varfærnar t.d. er áætlað að verðbólga á skuldir bæjarins verði 3,9% sem er mun hærri verðbólguspá en flest sveitarfélög reikna með en í haust áætlaði Hagstofan að verðbólga næsta árs yrði 2,9%. Verðtryggðar skuldir bæjarins eru um 25 milljarðar þannig að hvert prósent til hækkunar telur um 250 m.kr. í aukinn fjármagnskostnað. Skuldahlutfall bæjarins heldur áfram að lækka og frá árinu 2014 hefur það lækkað úr 174% í um 119% árið 2019. Fasteignaskattar á íbúðahúsnæði lækka úr 0,23% í 0,22% og fasteignaskattur atvinnuhúsnæðis lækkar úr 1,6% í 1,5%. Því til viðbótar munu holræsa- og vatnsgjöld lækka umtalsvert.
Þrátt fyrir lækkun á gjöldum og sköttum er áhersla lögð á bætta þjónustu í skólum bæjarins og þjónusta við eldri borgara aukin. Mikil áhersla er lögð á að bæta þjónustu við nemendur í skólum bæjarins. Þar er lögð áhersla á aukna sálfræðiþjónustu, snemmtæka íhlutun, forvarnir, aðgerðir gegn kvíða og bætta þjónustu fyrir börn með fjölþættan vanda. Þessi mál eru fyrirferðarmikil í málefnasamningi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og því fagnaðarefni að þessi mál séu sett á dagskrá þvert á flokka. Bætt verður við heimaþjónustu aldraðra og búið að ná samkomulagi við heilbrigðisráðherra um fjölgun dagvistunarrýma í Sunnuhlíð.
Gert er ráð fyrir miklum framkvæmdum á næsta ári og má nefna að um 350 m.kr. fari í gatnagerð á Kársnesinu enda ekki vanþörf á. Gert er ráð fyrir fjármunum til undirbúnings opnunar nýs bókasafns í efri byggðum og strandblakvöllur við Fagralund verður endurbyggður svo fátt eitt sé nefnt.
Ég hef þá sannfæringu að með góðri samvinnu innan bæjarstjórnar Kópavogs þá náum við meiri árangri fyrir heildina. Þessu hélt ég fram á síðasta kjörtímabili, verandi í minnihluta, og þannig vil ég sjá hlutina ganga fyrir sig áfram. Það er brýnt að allir sem einn leggist á árarnar þegar mikið liggur við og er samvinna farsælli leið en sundrung og er nærtækt að líta til Reykjavíkur í því samhengi. Með því er ég ekki að halda því fram að gagnrýni sé óþörf – þvert á móti er gagnrýni nauðsynleg. Það er hins vegar mikilvægt að hún sé sett fram á uppbyggilegan hátt og í framhaldinu vinni fólk saman að úrlausn mála. Við Kópavogsbúar erum því á réttri leið.