Öllum má vera ljóst að bæjarskrifstofur Kópavogs eru í óheppilegu húsnæði í dag á átta hæðum í Fannborg 2, 4 og 6. Fyrirkomulag húsnæðisins er úrelt og leiðir til mikils óhagræðis og sóunar og kallar jafnframt á mikinn rekstrar- og viðhaldskostnað til framtíðar. Á íbúafundi sem haldinn var í Salnum var farið yfir gögn sem liggja fyrir og greiningu á stöðu mála. Mér fannst ég skynja það á fundarmönnum að slíkar upplýsingar ættu að víkja fyrir tilfinningalegum rökum um staðsetningu bæjarskrifstofanna. Mótmæltu menn flutning úr Fannborginni m.a. vegna sögulegrar tengingar við gamla félagsheimilið. Andstæðingum flutninga hefur einnig verið tíðrætt um nauðsyn þess að sveitarfélagið eigi sérstakt ráðhús. Sjálf virði ég þessi sjónarmið þó ég telji ekki að starfsemi Kópavogsbæjar þarfnist sérstaks ráðhús sem minnir mig á úrelt viðhorf til valdhafa. Fyrir mér á Kópavogsbær fyrst og fremst að veita fyrsta flokks þjónustu þeim íbúum sem kjósa að búa í bæjarfélaginu og gera það með hagkvæmum hætti. Í mínum huga er ekki hægt að reka bæjarfélag í dag með því að skipta faglega unnum greiningum og úttektum út fyrir tilfinningarök eins og þeim að Kópavogur sé í Hamraborg en ekki í Smáranum. Allar greiningar hafa leitt okkur að þeirri niðurstöðu að það er óhagkvæmt að vera áfram í núverandi húsnæði þar sem þakrennur eru nú innanhúss en ekki utan vegna leka.
Á síðasta bæjarstjórnarfundi samþykkti ég tillögu sem kom fram um að bæjarfulltrúar fengju upplýsingar um hagkvæmni þess að bygga ofaná bílastæðahús við Ásbrautina og fresta um leið ákvörðun um flutning fram á næsta bæjarstjórnarfund. Ég er alls ekki hrifin af þeirri hugmynd m.a. vegna skuggamyndunar og skorts á bílastæðum en ég stend ekki í vegi fyrir því að fólk fái upplýsingar. Það gerði ég í nafni sáttar um framtíðarfyrirkomulagið þar sem málið þarf að leiða til lykta á skynsömum nótum.