Sátt við niðurstöðuna í húsnæðismálum stjórnsýslu Kópavogs

Margrét Friðriksdóttir, forseti bæjarstjórnar.
Margrét Friðriksdóttir, forseti bæjarstjórnar.

Margir líta svo á að Margrét Friðriksdóttir, forseti bæjarstjórnar, hafi farið gegn tillögu meirihlutans í bæjarstjórn um að flytja skrifstofur bæjarstjórnar frá Fannborg yfir í Norðurturn Smáralindar. Niðurstaðan varð sú að bæjarstjórn samþykkti fyrst viðhaldsframkvæmdir á Fannborg  en síðar var ákveðið að flytja starfsemina í hentugra húsnæði við Digranesveg 1. Margrét vill lítið gera úr ágreiningi í þessu máli en segist sátt við niðurstöðuna nú. „Í upphafi þess máls setti ég strax fram þá skoðun mína að í ljósi sögunnar um uppbyggingu Kópavogs og þess að á Kópavogshálsinum hafa verið byggð glæsileg menningarmannvirki að húsnæði stjórnsýslu Kópa-vogs ætti að vera staðsett á því svæði. Um málið ríkti ekki samstaða innan bæjarstjórnar, hvorki innan meirihlutans né minnihlutans, og var það því sett í ákveðinn farveg. Stofnaður var vinnuhópur og margir möguleikar voru skoðaðir. Niðurstaðan varð sú að stjórnsýsla Kópavogsbæjar skuli áfram vera á Kópavogshálsinum en ekki flutt í turn í Smáranum. Ég er mjög sátt við þá niðurstöðu sem nú er komin og  vil gjarnan skoða framtíðarskipulag á Fannborgarreit í framhaldinu,“ segir Margrét.

Þú sóttist eftir forystusæti hjá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi í prófkjöri fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar en hafnaðir í öðru sæti á eftir Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra. Mikið var gert úr sundrungu í flokknum fyrir prófkjörið og talað um tvær fylkingar tækust þar á. Hvernig hefur samstarf þitt og Ármanns gengið á kjörtímabilinu?
„Þegar ég tók ákvörðun um að bjóða mig fram til starfa í bæjarstjórn eftir mikla hvatningu sem ég hafði fengið, bæði frá Sjálfstæðismönnum og öðrum bæjarbúum, var það mín ákvörðun að gefa kost á mér í fyrsta sætið. Ég hef starfað við stjórnunarstörf í þrjá áratugi auk menntunar á því sviði svo ég tel að mínir kraftar nýtist best þar. Ég lít svo á að prófkjör sé sú aðferð að gefa flokksmönnum val um frambjóðendur í öll sæti. Í ljósi þess að ég var að koma ný inn á vettvang sveitarstjórnarmála í Kópavogi var ég mjög sátt við niðurstöðu mína í prófkjörinu og hlaut góða kosningu í annað sætið. Flokksmenn raða á listann í prófkjöri og ég virði að sjálfsögðu niðurstöð-una. Þar sem ég var að koma ný inn í flokksstarfið á þeim tíma er ekki óeðlilegt að framboð mitt hafi komið mörgum á óvart innan flokksins. Síðan þá hef ég náð að kynnast og kynnt mig fyrir flokksmönnum og tel alls ekki að um sundrungu sé að ræða í okkar röðum né hafi verið. Við erum fimm bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokkins í bæjarstjórn og erum í meirihlutasamstarfi með tveimur bæjarfulltrúum Bjartrar framtíðar. Samstarf okkar hefur gengið mjög vel þó vissulega séu skiptar skoðanir um einstök mál. Auk þess hef ég átt mjög gott samstarf við fulltrúa minnihlutaflokkanna sem forseti bæjarstjórnar sem ég tel vera mjög mikilvægt. Ármann Kr. Ólafsson er oddviti okkar Sjálfstæðismanna og bæjarstjóri. Það er ekki annað í boði fyrir bæjarbúa en að ég sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og forseti bæjarstjórnar eigi gott samstarf við bæjarstjórann.“

Skoðanir eru skiptar um starfshlutfall bæjarfulltrúa og hvernig ber að greiða fyrir setu í bæjarstjórn Kópavogs. Hver er þín skoðun á því?
„Það er mikið starf að vera bæjarfulltrúi í Kópavogi, þessu ört stækkandi sveitarfélagi, enda fer enginn í slíkt nema ætla að vinna að því af krafti og heilindum. Starfstími bæjarfulltrúa fer að mestu leyti fram utan hefðbundins vinnutíma sem gerir það að verkum að fólk er að fórna sínum frítíma í starfið. Í mínu tilfelli eru fjölskylduhagir þannig að mér er þetta kleift en hestamennskan hefur þurft að víkja í bili. Kópavogur er næst stærsta bæjarfélag á landinu með mikinn fjölda starfsmanna og viðamikla þjónustu við bæjarbúa. Það er mikilvægt að bæjarfulltrúar séu mjög vel inni í málum til að geta tekið upp-lýstar ákvarðanir. Ég hef lagt fram hugmyndir að breyttu stjórnskipulagi þar sem þátttaka bæjarfulltrúa í starfi lykilnefnda verður meiri en er í dag.  Áherslan er á að straumlínulaga stjórnskipulagið, draga úr endurtekningu og auka skilvirkni. Í því samhengi  myndi starfshlutfall bæjarfulltrúa verði meira en það er í takt við önnur stærri sveitarfélög. Ég hef væntingar um að það nái fram að ganga.“

Í nýlegu viðtali við formann íþróttaráðs í Kópavogspóstinum lét hann að því liggja að Breiðablik ætti að flytja hluta starfsemi sinnar í Fagralund, þar sem HK hefur flutt í Kórinn. Hver er þín skoðun á því? Hvað með nýtt íþróttafélag í Kópavogi, ÍK, hefur þú heyrt af því?
„Þarna er formaður íþróttaráðs Jón Finnbogason að vísa í samkomulag sem gert var fyrir nokkrum árum. Samkomulagið felur í sér í megin-atriðum að HK flytur sína starfsemi í Kórinn og þjónustar efri byggðir en Breiðablik þjónustar neðri byggðir í Smáranum. Það er alltaf erfitt og svolítið tilfinningamál þegar svona breytingar eru að ganga yfir en til framtíðar teljum við þetta betra fyrirkomulag.  Við í Kópavogi búum svo vel að geta boðið iðkendum upp á glæsilega aðstöðu og íþróttafélögin eru að standa sig virkilega vel. Ég hef heyrt af því að verið sé að endurreisa Íþróttafélag Kópavogs og að það hafi fengið inngöngu í UMSK. Ég veit að forsvarsmenn ÍK hafa augastað á að þjónusta íbúa í norðurhluta Kópavogs með aðstöðu í Fagralundi. Mér vitanlega hafa ekki farið fram neinar viðræður milli ÍK og Kópavogsbæjar en ég hef þá skoðun að fyrst og fremst þurfi að líta á hagkvæmni í íþróttastarfseminni og þjónustu við iðkendur. Þetta þarf að skoða vel.“

Nú ert þú formaður skólanefndar Kópavogs. Hver hafa helstu verkefni skólanefndar verið á kjörtímabilinu?
„Við búum svo vel í Kópavogi að eiga góða grunnskóla með metnaðarfullum hópi kennara og öflugu starfsfólki. Sem formaður skólanefndar er ég ákaflega þakklát öllu þessu góða fólki sem þar starfar. Nú stunda um 4.700 börn og unglingar nám í níu grunnskólum og skólamálin eru stærsti einstaki málaflokkur í rekstri bæjarins með nærri helming af út-gjöldum hans. Eitt stærsta verkefni á sviði skólamálanna hefur verið spjaldtölvuvæðingin. Tækninni fleyg-ir áfram og við þurfum að hafa okkur öll við til að fylgjast með því sem er nýjast hverju sinni. Við megum því engan tíma missa þegar kemur að skólaþróun á sviði upplýsingatækninnar. Spjaldtölvur gegna hér lykilhlutverki og því munu allir nemendur á miðstigi og efstastigi fá spjaldtölvu til að þeir geti tekið aukið frumkvæði í námi sínu og hæfni hvers nemanda nýtist sem best. Þegar hafa nemendur í 6. – 9. bekk fengið spjaldtölvur og við upphaf næsta skólaárs verða nemendur frá 5.-10. bekkjar komnir með sínar tölvur. Kennarar og stjórnendur skólanna hafa lagt á sig ómælda vinnu við undirbúning og innleiðingu verkefnisins og eiga þeir hrós skilið. Þá skrifuðum við á síðasta ári undir þjóðarsáttmála um læsi, þar sem menntamálayfirvöld og sveitarfélög einsetja sér að bæta læsi barna á Íslandi. Í því sambandi er nú verið að vinna að sameiginlegri læsisstefnu fyrir börn í Kópavogi. Í Hvítbók menntamálaráðherra er gert ráð fyrir að 90% grunnskólanema nái lágmarksviðmiðum í lestri fyrir árið 2018.  Í niðurstöðum PISA kom fram að í Kópavogi hafa 85% nemenda þegar náð lágmarksviðmiði. Við þufum hins vegar í okkar stefnumótun að efla áhuga barna á lestri á öllum skólastigum, skilgreina betur aðkomu foreldra og hvernig sveitarfélagið getur stutt við eflingu læsis í Kópavogi. Þá eru fjölmörg önnur mikilvæg mál í gangi, það er búið að samþykkja nýja stefnu í málefnum dægradvala í grunnskólum bæjarins, skipuð hefur verið nefnd um sveigjanleg skil leikskóla og grunnskóla, verið er að undirbúa endurbætur á skólalóðum, Hörðuvallaskóli er komin með kennsluaðstöðu fyrir elstu bekkina í Kórnum, hafin er bygging á nýju íþróttahúsi við Vatnsendaskóla og svona mætti áfram telja. Ég hef mikinn metnað fyrir starfi grunnskólanna í bænum og horfi björtum augum til framtíðar þess. Ég legg áherslu á að grunnskólar Kópavogs verði ávallt í fremstu röð.“

Nú verða kosningar til Alþingis eftir rúmlega eitt ár. Orðrómur er á kreiki um að þú hyggist gefa kost á þér á lista Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi. Hvað vilt þú segja um það?
„Í dag er ég fyrst og fremst að hugsa um að vinna eins vel og get fyrir Kópavogsbúa. Ég hef mikla ánægju af því starfi. Hvað framtíðin ber í skauti sér er ekki tímabært að ræða núna.“

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn