Þrjátíu ellefu ára börn frá litlum þorpum á austurströnd Grænlands hafa að undanförnu dvalið í Kópavogi þar sem þau hafa meðal annars lært að synda. Börnin eru hér á landi á vegum Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, í góðu samstarfi við menntasvið Kópavogsbæjar.
Með börnunum eru sex fararstjórar og kennarar og fylgja þau skipulagðri dagskrá á hverjum degi, eftir skóla og sund. Þau búa við fábrotnar aðstæður á Grænlandi og hafa lært margt nýtt og athyglisvert í heimsókn sinni til Íslands.
Þau gista í Kópavogi en hafa m.a. farið í Húsdýragarðinn, skoðað Gullfoss og Geysi og fengið leiðsögn um sali Alþingis. Þá sáu þau um daginn hesta í fyrsta sinn.
Alls dvelja þau á Íslandi í tvær vikur.