Steinunn Lilja Heiðarsdóttir, sauðfjárbóndi að Haukholtum í Hrunamannahreppi, gerði sér lítið fyrir og dúxaði verknámið í MK í ár. Steinunn, sem útskrifaðist sem matreiðslumaður, hlaut 8,9 í meðaleinkunn.
„Ég var að burðast með gamlar syndir, frá því ég hóf mitt menntaskólanám á árum áður, annars hefði nú einkuninn orðið hærri,“ segir Steinunn kankvís. „Mér gekk ekki vel í námi fyrst og fór í annað . Síðan fékk ég áhuga á matreiðslunáminu innan Hótel- og veitingaskólans í MK og byrjaði á því á árinu 2008. Bílslys setti strik í reikninginn hjá mér þar sem ég handleggsbrotnaði og varð að gera annað hlé á náminu. En þetta hafðist að lokum og ég er mjög sátt við árangurinn þegar upp er staðið. Ég tel aldurinn líka spila mikið inn í þetta, ég er 26 ára og ekki að gera þetta fyrir neinn nema sjálfa mig.“
-Og hvernig fer það saman að vera sauðfjárbóndi í Hrunamannahreppi með 500 ær og stunda nám í MK?
„Þetta var bara fyrst og fremst vinna og skipulag. Ég er líka svo heppin að eiga góða að. Unnusti minn studdi mig gríðarlega mikið og svo gat ég búið í bænum hjá ömmu og afa og keyrt heim um helgar í búskapinn.“
-En af hverju þetta nám?
„Ég hef gríðarlega mikinn áhuga á matreiðslu og allri matarmenningu, og þá helst íslenskri. Sem sauðfjárbóndi langar mig í framtíðinni að stuðla að styttra bili á milli markaðarins og framleiðanda. Matartengd ferðamennska er mér síðan hugleikin ásamt því að gera bændur meira meðvitaða um hvað þeir geta gert meira úr vöru sinni en bara að senda hana í sláturhús. Ég hef mjög mikinn áhuga á allri sjálfbærni og sé fyrir mér að ég muni starfa á þessum vettvangi í framtíðinni.“
-Hvernig var staðið að náminu?
„MK er frábær skóli þar sem vel er staðið að náminu. Þar er gott aðhald þar sem fagstjóri, áfangastjóri og umsjónarkennari voru alltaf til staðar. Oft vorum við að læra til miðnættis en samt var hægt að leita til kennara með eitthvað úrlausnarefni. Í stað prófa í lok annar var gert símat til að meta verklag. Það er að mínu mati mjög sniðugt, sanngjarnt og raunhæfara mat á verklagi en sífelld próf. Ég mæli hiklaust með þessu námi. Það vantar alltaf fleiri kjötiðnaðarmenn, svo dæmi sé tekið, og það er slegist um starfskrafta sem útskrifast úr þessu námi,“ segir Steinunn Lilja.
-Hvað tekur nú við?
„Ég stefni á nám í búfræðum í haust í fjarnámi frá bændaskólanum að Hvanneyri en svo er draumurinn að starfa við matartengda ferðamennsku í framtíðinni. Hlutir eins og verkefnið „Beint frá býli“ og það sem verslunin Frú Lauga hafa verið að gera höfða mjög sterkt til mín,“ segir Steinunn Lilja Heiðarsdóttir, sauðfjárbóndi í Hrunamannahreppi og dúx MK af verknámsbraut.