Sema Erla Serdar er Kópavogsbúi ársins

Óþreytandi í baráttu gegn hatursorðræðu.

Sema Erla Serdar, er Kópavogsbúi ársins 2016, að mati Kópavogsblaðsins.

Hatursorðræða er tiltölulega nýtt íslenskt orð. Orðið nær yfir þá sem tjá sig með áköfum og hatursfullum hætti á internetinu, í kommentakerfum netmiðla, á samfélagsmiðlum eða í öðrum fjölmiðlum.

Í tilmælum ráðherraráðs Evrópuráðsins nr. 97(20) er að finna nokkurs konar skilgreiningu á hatursorðræðu. Þar segir meðal annars að hatursorðræða sé: „…öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþátta-, útlendinga, gyðinga eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, þar á meðal umburðarleysi sem er tjáð með herskárri/óvæginni þjóðræknisstefnu/þjóðernishyggju eða þjóðhverfum sjónarmiðum, mismunun og fjandskap gegn minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna.“

Á Fundi Fólksins í haust fór fram pallborðsumræða um hatursorðræðu í fjölmiðlum. Meðal þess sem þar kom fram var að óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera opinber persóna á Íslandi væri að fólk hefði opinbera skoðun á henni. Sú skoðun getur verið mjög óvarleg, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og fela í sér hatur á manneskjunni. Kópavogsbúi ársins, að mati Kópavogsblaðsins, er Sema Erla Serdar. Hún fer einna fremst í hópi þeirra sem berjast gegn hatursorðræðu í opinberri umræðu. Hún á tyrkneskan föður, er fædd á Íslandi, gekk í skóla á Íslandi, er fermd í íslensku þjóðkirkjunni og talar fyrir jafnrétti, réttlæti og mannréttindum. Sjálf segir hún málflutning sinn og skoðanir vera hófsaman en telur að vegna þess að hún sé kona, eigi erlendan föður og tjái sig um málefni innflytjenda, fjölmenningarsamfélagsins og málefni fólks á flótta megi hún þola ótrúlegar aðdróttanir, hótanir og hatursfull ummæli. „Ég er fyrir löngu hætt að reyna að svara fyrir mig þegar ég fæ verstu ummælin yfir mig,“ segir Sema. „Það er eins og að hella olíu á eld. Rök virðast ekki skipta neinu máli enda snúast ummælin aldrei um það sem ég segi, skrifa eða geri heldur um mína persónu, minn uppruna, hvað ég eigi að vera og hvað ekki. Umræðunni um hatursorðræðu er yfirleitt blandað saman við umræðuna um tjáningarfrelsi, sem ég tel ekki vera rétta nálgun. Hatursorðræða er ekkert annað en andlegt ofbeldi,“ segir Sema. „Fólk segist vera að nota tjáningafrelsi sitt þegar það veður yfir mig, hótar mér og lýgur jafnvel upp á mig persónulegum hlutum og skoðunum. Réttur fólks til þess að vera laus við mismunun hlýtur að ganga lengra en það. Það er hreinlega bannað með lögum að ráðast opinberlega að hópi manna með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða,“ segir Sema og vísar í grein 233a í almennum hegningarlögum, máli sínu til stuðnings.

Sema Erla hefur verið óþreytandi að vekja athygli á hatursorðræðu, flytja forvarnarfyrirlestra um málefnið, meðal annars í skólum og skila skömminni þegar slíkt á við. „Krakkar sem ég hitti í skólum eru oft agndofa yfir ummælum sem ég sýni þeim að fullorðið fólk lætur út úr sér á netinu. Þar eru ótrúlegustu hlutir látnir flakka sem myndu sjálfsagt aldrei vera sagðir augliti til auglitis. Ég mætti eitt sinn konu í Bónus sem hafði viðurstyggileg ummæli um mig á kommentakerfinu í DV. Þegar augu okkar mættust bar hún kennsl á mig, varð skömmustuleg og forðaði sér út úr búðinni. Þetta segir mér svo mikið. Sem betur fer eru nokkrir sem hafa séð að sér og beðið mig afsökunar á ummælum sínum um mig og tekið fulla ábyrgð á því. Mér þykir mjög vænt um það. Fólk getur misst sig í múgæsingu fjöldans sem er stórhættulegt,“ segir Sema sem er bjartsýn á að með aukinni fræðslu og forvörnum megi stemma stigu við hatursorðræðu sem hún telur vera stórhættulegt samfélagsmein, enda sé hatursorðræða oft undanfari hatursglæpa. „Að mínu mati skila forvarnir bestum árangri. Allir þurfa að líta í eigin barm því orðum fylgja ábyrgð. Almenna reglan á að vera sú að að ef þú getur ekki sagt það sem þú vilt segja við manneskjuna augliti til auglitis þá áttu að sleppa því að skrifa það á internetið.“

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Niðurlagning Héraðsskjalasafns Kópavogs

Skaðræðisgjörningur bæjarstjórnar Kópavogs Bæjarstjórn Kópavogs ákvað á fundi sínum 25. apríl 2023 með sex atkvæðum meirihlutans gegn fimm atkvæðum minnihlutans að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs. Þar fetaði bæjarstjórnin í slóð

Hrönn Valgeirsdóttir, leikskólakennari og M.A. í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf.

Mikill áhugi á fræðslukvöldum fyrir foreldra

Foreldrum og forsjáraðilum leikskólabarna í Kópavogi stendur til boða að mæta á fræðslukvöld þar sem fjallað er um uppeldishætti, að setja mörk og ábyrgð og líðan foreldra. Fyrsti fundurinn var

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn