Núna langar mig til þessa að deila með ykkur Þriðja boðorðinu mínu. Mér finnst það pínu uppáhalds.
Ég hef aldrei lent í fyrsta sæti. Ekki í neinu. Aldrei fengið bikar. Nema fyrir framför og ástundun í fótbolta. Ég var mjög dugleg að stunda íþróttir þegar ég var lítil og fram yfir unglingsárin og fékk alveg helling af medalíum. En aldrei var það fyrsta sætið. Það var alltí lagi. Ég var með fínt jafnaðargeð sem barn og fannst bara gaman að taka þátt og fá önnur eða þriðju verðlaun.
Það sem var kannski ekki alveg allt í lagi var að í lífinu setti ég sjálfa mig ekki í fyrsta sætið. Kannski þess vegna sem ég vann aldrei fyrstu verðlaun. Ég skal ekki segja. En ég átti erfitt með að taka pláss og hugsa vel um mig og heilsuna mína.
Ég man eftir því þegar ég var lítil og ég kom að umferðagötu. Einu almennilegu umferðargötunni á Selfossi. Ég vildi ekki að bílarnir myndu stoppa fyrir mér, svo ég beið oft og þóttist skoða blómin á umferðareyjunni svo bílarnir þurftu ekki að stoppa fyrir mér. Þegar þeir voru farnir framhjá skoppaði ég yfir götuna. Með fulla lúku af gulum fíflum. Ég var ekki í fyrsta sæti hjá sjálfri mér.
Á unglingsárunum og fram að byrjunar-dömu-árunum vann ég voðalega mikið. Ég var í tveimur eða þremur störfum og jafnvel í skóla með. Hvers vegna? Það vantaði fólk. Ég gat og þorði ekki að segja nei. Úrvinda í skrokknum og ringluð í toppstykkinu mætti ég í vinnuna. Af því það vantaði fólk.
Ég setti sjálfa mig ekki í fyrsta sætið.
Ég sat stundum og hlustaði á fólk. Stundum var ég alveg að pissa í buxurnar, en fór ekki á klósettið. Því ég var svo mikið að hlusta á fólk og vera með í samræðum. Ég þorði ekki að standa upp og pissa, þá myndi ég trufla samræðurnar.
Ég setti sjálfa mig ekki í fyrsta sæti.
Ég borðaði oft mjög óreglulega af því ég gaf sjálfri mér ekki tíma til að borða. Eða gaf sjálfri mér ekki tíma til að hreyfa mig markvisst. Í vinnunni eða á öðrum stöðum var ég oft of upptekin við að gera eitthvað annað en að hugsa um sjálfa mig og setja sjálfa mig í fyrsta sætið.
Ef ég hugsa ekki um sjálfa mig, hver gerir það þá?
Heilsan mín er það mikilvægasta sem ég hef. Ef ég hef hana ekki, hvað hef ég þá?
Ok. Setjum Siggu í tímavél. Í þykjó er til tímavél. Stillum hana á 30 ár fram í tímann. Þar horfir „gamla sigga“……….afsakið, ég meina „Sigga á besta aldri“, útum gluggann á húsinu sínu í sveitinni og langar svakalega að gera kartöflugarð og rækta gulrætur. Og rófur. Fá sér jafnvel nokkrar hænur.
En „Sigga- á besta aldri“ getur ekki látið þann draum rætast. Hún er bakveik eftir of mikla vinnu, með gigt í hnjám og ökla vegna ofþyngdar og ónýta pissublöðru. Meltingarfærin hennar eru líka í ólagi. Hún tekur kúkatöflur sem hún fær skaffaðar frá lækninum.
„Sigga á besta aldri“ er rétt um sextugt. Og hún getur ekki ræktað rófur.
Þetta hafði hún upp úr því að setja sjálfa sig ekki í fyrsta sætið. Hvað græddi hún á þessu öllu saman.
Jú, Viðurkenningu.
Ah, þessi Viðurkenning. Súrsætur andskoti eins og Bubbi myndi orða það.
En Viðurkenningin ræktar ekki rófur. Eða gefur hænunum að borða.
Þriðja boðorð Siggu: Setjið sjálfa(n) ykkur í fyrsta sætið.
Hugsum vel um okkur sjálf. Líkamlega og andlega. Þannig höldum við heilsunni okkar í lagi. Og það er það besta sem við getum gefið okkur sjálfum!
Njótið þess að vera þið í ykkar líkama með ykkar sál og gerið það besta hverju sinni til að klappa ykkur á öxlina og vera góð við sjálfa(n) ykkur!
Hlýjir straumar til ykkar!
Ykkar Sigga