„Hefðbundnar“ busavígslur með tilheyrandi niðurlægingu nýnema heyrir sögunni til í Menntaskólanum í Kópavogi. Nemendur og kennarar við skólann voru sammála í ár að breyta til og bjóða frekar nýnema velkomna í skólann með því að grilla fyrir þá hamborgara og pylsur og fara í stefnumótaleik.
„Það voru allir sammála um að gera þetta skemmtilegt og jákvætt í ár og hætta þessum svokölluðu busavígslum með öllum þeim leiðindum og vanvirðingu sem því fylgir,“ segir Margrét Friðriksdóttir, Skólameistari MK.
-Og hvernig mæltist þetta fyrir hjá nemendum?
„Þetta var gríðarlega vel heppnað. Um 250 manns mættu. Það var sungið og dansað og við fengum hljómsveitina Kajak til að spila sem nýtur núna gríðarlegra vinsælda hjá ungu fólki. Við búum líka svo vel að hér er Hotel- og matvælaskólinn þannig að allir fengu mjög ljúffengan mat að borða. Nemendur fóru svo í stefnumótunarleik í anda „Djúpu laugarinnar“ fyrir nýnema sem var bara mjög skemmtilegt. Allir nemendur voru með bros á vör og kennarar líka. Þannig á það að vera í skólastarfinu,“ segir Margrét.
-Hvernig leggst svo skólaárið í MK-inga?
„Bara mjög vel. Við erum að fara að fagna 40 ára afmæli skólans þann 20. september og þá verður margs að minnast úr skólastarfinu. Um svipað leyti verðum við með svokallaða umhverfisviku þar sem vitundarvakning nemenda og kennara um umhverfismál verður efld með fræðslu og fyrirlestrum. Síðan erum við að fara að sameina bókasafnið okkar og tölvuþjónustu í eitt upplýsingatækniver sem svarar kalli tímans þannig að það er nóg um að vera í MK,“ segir Margrét Friðriksdóttir, Skólameistari MK.