Síðasta fjárhagsáætlun núverandi bæjarstjórnar

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi.
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi.

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti í síðustu viku fjárhagsáætlun fyrir árið 2022. Eftir breiða samvinnu þvert á flokka þar sem fulltrúar bæjarstjórnar, nefnda og ráða auk starfsfólks, mótuðu stefnur fyrir hvert svið fyrir sig, varð til aðgerðaáætlun sem er til grundvallar í fjárhagsáætlun næsta árs (og vonandi ára). Ekki tókst að fjármagna alla liði aðgerðaáætlanna, sem verða vonandi aðgengilegar á vef bæjarins von bráðar, en niðurstaðan var að forgangsraða í þágu málefna barna, lýðheilsu og velferðar. Mörg góð verkefni eru á döfinni sem við Kópavogsbúar getum öll verið mjög stolt af.

Eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem verður fjármagnað er fyrirhugað samstarf við nágrannasveitarfélögin okkar Hafnarfjörð og Garðabæ, varðandi sértæk húsnæðisúrræði fyrir einstaklinga með fjölþættan vanda, þ.e. fólk sem er með vímuefnavanda auk annars vanda. Því miður er það svo að fólk sem treystir sér ekki til eða getur ekki hætt að nota vímuefni, á gjarnan mjög erfitt með að fá húsnæði og það getur þróast í krónískt heimilisleysi.

Þessi hugmyndafræði, svokölluð skaðaminnkandi nálgun, felur í sér að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu á notendur vímuefna, fjölskyldur þeirra og nærsamfélagið allt. Þetta er viðleitni til að lágmarka skaðann sem neyslan veldur fremur en að fyrirbyggja sjálfa notkunina. Þannig er gengið út frá því að húsnæði sé grunnþörf sem telst til mannréttinda.  Fyrst þarf að mæta þessari grunnþörf til þess að einstaklingurinn geti ráðið við aðrar áskoranir. Það hefur sýnt sig að þessi nálgun dregur úr bæði bráðakomum og innlögnum á sjúkrahús, dregur úr tíðni fangelsunar, leiðir til almennt meiri lífsgæða íbúanna og aðstandenda þeirra og dregur úr álagi á nærsamfélagið. Sumsé mjög þörf aðgerð sem vonandi vinnst hratt og vel í góðu samstarfi.

Ein þeirra aðgerða sem eru á listanum og ég hefði gjarnan viljað sjá verða að veruleika eru samgöngustyrkir fyrir starfsfólk bæjarins, en það felur í sér að starsfólk geri samning um að koma til vinnu með öðrum ferðamáta en bíl, að minnsta kosti flesta daga vikunnar. Ekki var þverpólitísk sannfæring um ágæti slíkra styrkja og ef til vill er rétt að þetta er að einhverju leyti djarft skref og kostnaðarsamt. Raunin er þó sú að sífellt fleiri vinnuveitendur hafa á undanförnum árum tekið upp á að gera samgöngusamninga við starfsfólk sitt og ávinningurinn er margvíslegur. Ferðir starfsmanna til og frá vinnu eru gjarnan langstærsti þáttur kolefnislosunar sem tengist venjulegri skrifstofustarfsemi og samgöngusamningar eru eitt besta tækið sem vinnuveitendur hafa til að hvetja starfsmenn til vistvænna samgangna. Landspítalinn, stærsti vinnustaður landsins, hlaut til dæmis loftslagsviðurkenningu Festu árið 2020 meðal annars vegna góðs árangurs af samgöngusamningum við starfsfólk sitt. Eftir að spítalinn fór í samstarf með Strætó árið 2019 um niðurgreiðslu árskorta fjölgaði virkum árskortum starfsfólks úr 130 í 540 á einu ári. Það er ótvíræður árangur! Fyrir utan sparnað í kolefnislosun dregur fækkun bílferða bæði úr umferðarteppu og svifryksmengun. Rúsínan í pylsuendanum er svo að fólk sem notar virka ferðamáta er að jafnaði ánægðara, heilbrigðara og afkastameira en fólk sem ekur til vinnu.

Við þurfum að vera róttæk í aðgerðum til þess að draga úr kolefnislosun. Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár er sú síðasta sem þessi bæjarstjórn vinnur á kjörtímabilinu. Sveitarstjórnarkosningar eru eftir tæpa fimm mánuði. Vonandi hefur ný bæjarstjórn kjarkinn sem þarf til að forgangsraða í þágu loftslagsins í næstu fjárhagsáætlunarvinnu.

Umræðan

Fleiri fréttir

Lyfjaskolp við Gvendarbrunna – skipulagsslys við Gunnarshólma

AðsentMeirihluti bæjarstjórnar Kópavogs hefur samþykkt að skoða alvarlega áform um að reisa heilsutengt ofurþorp fyrir 15.000 manns við Gunnarshólma, í miðju vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Svæðið er þekkt flóðasvæði þar sem áin Suðurá flæðir

Íbúar völdu saunur og skautasvell

Infrarauðar saunur og yfirbyggðir stigar í rennibrautir beggja sundlauga Kópavogs, vélfryst skautasvell í Kópavogsdal, bleikir bekkir til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur, aðstaða til sjósunds á Kársnesi og endurnýjun og

Höskuldur og Thelma íþróttakarl og íþróttakona ársins

Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður úr Breiðabliki og Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2024.  Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum miðvikudaginn 8.

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar