Hér kemur einfaldur kvöldverður sem ætti að henta öllum í fjölskyldunni, kartöflurnar verða sérlega góðar þar sem þær sjúga í sig bragðið af kryddunum og sítrónunni. Í grískum uppskriftum er gjarnan allt hráefnið eldað saman í potti eða í ofni. Þessi uppskrift er einmitt þannig, allt sett saman í stórt eldfast mót og látið eldast í ca 40 mínútur við 190 gráður.
Fyrir fjóra
4 kjúklingabringur
6 bökunarkartöflur, skornar
í báta
4 hvítlauksgeirar
1 msk oregano
1 msk timian
safi úi einni sítrónu
ólívuolía,
maldon salt og svartur pipar
Hitið ofninn, setjið bringurnar í mótið og raðið kartöflunum meðfram ásamt hvítlauk, kryddum og salti og pipar, hellið smávegis af olíunni yfir og að síðustu sítrónusafanum. Gott að hræra upp í þessu nokkrum sinnum svo kjúklingurinn eldist örugglega alveg í gegn. Passa þó að þetta sé ekki of lengi í ofninum svo bringurnar verði ekki þurrar. Þetta er síðan borið fram með brauði og salati.
Salat
Salatblöð
4 bufftómatar
1-2 rauðlaukar, látið rauðlaukinn (skorinn smátt) liggja í 2 msk af rauðvínsediki, oreganó, olíunni af fetaostinum og 1 tsk af salti í hálftíma.
2 msk rauðvínsedik
1 msk oregano
2 tsk maldon salt
ólívur eftir smekk
1 dós fetaostur eða fetakubbur.
Rífið salatið niður í skál, skerið tómatana smátt niður, setjið síðan rauðlaukinn, ólívurnar og fetaostinn yfir í restina.
Verði ykkur að góðu!
Andrea Guðmundsdóttir