Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Kópavogs heldur velli, ef gengið yrði til kosninga nú, samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar sem unnin var fyrir Morgunblaðið og birt er í dag. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig manni en Y-listinn, listi Kópavogsbúa, sem nú myndar meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Framsókn, myndi tapa sínum manni, ef kosið yrði nú.
Sjálfstæðisflokkurinn fer úr 30,2% fylgi úr kosningunum 2010 í 41,4% ef gengið yrði til kosninga nú, bætir við sig manni í bæjarstjórn og fengi fimm menn kjörna nú. Framsókn heldur sínum manni og bætir við fylgi sitt, fer úr 7,2% frá síðustu kosningum í 9,5% ef kosið yrði nú. Kópavogslistinn fer úr 10,2% fylgi niður í 3%
Meirihlutaflokkar úr fyrri bæjarstjórn; Samfylking, Vinstri Grænir og Næstbesti flokkurinn tapa fylgi, samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar. Samfylking færi úr 28% niður í 14,5% og tapar manni í bæjarstjórn, úr þremur í tvo. Vinstri Grænir halda sínum manni í rétt rúmum 9% en Næstbesti flokkurinn hrynur úr 13,8% niður í 0,6% Fylgi Næstbesta flokksins fer líklega beint yfir til Bjartrar framtíðar sem mælist nú með 13,9% fylgi og ná inn manni. Það gera líka Píratar sem fá 7,7% og ná inn manni, samkæmt könnun Félagsvísindastofnunar sem birt er í Morgunblaðinu í dag.
Könnunin fór fram dagana 6. til 25. nóvember. Úrtakið var samanlagt 1.012 manns. Svarhlutfallið var 60% Flestir kjósenda töldu fjármál sveitarfélagsins vera þeim efst í huga þegar þeir voru spurðir hvert væri mikilvægasta pólitíska verkefnið sem sveitarfélagið stæði frammi fyrir um þessar mundir.