Fyrir 71 ári síðan eða þann 17. júní árið 1944 var lýðveldið Ísland formlega stofnað. Sú ákvörðun að stofna lýðveldið þann dag var engin tilviljun en þennan sama dag árið 1811 fæddist Jón Sigurðsson, helsti leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni.
Á Hrafnseyrarhátíð þann 17. júní árið 1961 mæltist Ásgeiri Ásgeirssyni forseta svo um Jón Sigurðsson: „Það getur enginn gert sér grein fyrir því, hvernig nú væri ástatt um hag þjóðar vorrar, ef hún hefði ekki eignast Jón Sigurðsson, þegar mest lá við. Það verður ekki stungið svo skóflu í jarðveg og sögu íslenskrar viðreisnar að ekki komi niður á æfistörf Jóns Sigurðssonar. Jón Sigurðsson er ímynd Íslendingsins eins og hann getur verið mestur og bestur.“
Ættjarðarást Jóns var svo mikil að hann helgaði líf sitt baráttunni fyrir sjálfstæðu ríki. Ættjarðarást má þó ekki rugla saman við þjóðernishyggju enda vildu Jón og þeir sem elskuðu landið af öllum mætti byggja hér land með því að opna það upp á gátt. Jón var fylgjandi auknu frelsi, einstaklingsfrelsi, lýðfrelsi og þjóðfrelsi, jafnrétti og bræðralagi. Ástin sem menn og konur bera til ættjarðarinnar getur tekið á sig ýmsar myndir. Sjálfstæðishetjurnar okkar börðust fyrir stjórnfrelsi, verslunarfrelsi og atvinnufrelsi. Sjálfstæðishetjur nútímans berjast hins vegar gegn fjölmenningarsamfélaginu, gegn innflytjendum og gegn Evrópusamruna. Slíkt á ekkert skylt við ættjarðarást heldur er um að ræða þjóðernishyggju í sinni skýrustu mynd.
Íslensku samfélagi stafar ekki ógn af innflytjendum, fjölmenningu eða trúarbrögðum. Hvorki þá né nú. Íslensku samfélagi stafar ógn af öflum sem telja sig yfir aðra hafna vegna þjóðernis, kynþáttar, litarhafts, trúarbragða, menningar eða annarra slíkra þátta. Að ala á ótta er elsta trixið í bókinni og það er mikilvægt að bíta ekki á agnið.
Fátt ræður fremur örlögum um framtíð okkar og komandi kynslóða en hvernig staðið er að uppbyggingu í samfélaginu. Það samfélag sem Jón sá fyrir sér er ekki samfélag sem elur á þjóðernisrembingi og ótta við nágrannann heldur samfélag sem byggist á umburðarlyndi, réttlæti og jöfnuði.
Baráttan fyrir slíku samfélagi heldur því áfram, 71 ári eftir stofnun lýðveldisins. Það er því við hæfi á sjálfan þjóðhátíðardaginn og afmæli Jóns að við tileinkum okkur þann boðskap sem hann og félagar hans stóðu fyrir í sjálfstæðisbaráttunni. Það er ættjarðarást.
Gleðilegan þjóðhátíðardag!
,,Ekkert gönuskeið ætjarðarástarinnar er háskalegra hjá fámennri og afskekktri þjóð heldur en innilokunarlöngunin. Í öllum lifandi bænum – hvað sem öllu öðru líður – þá lofum lofti heimsmenningarinnar, heimshugsananna að leika um okkur. Hræðumst ekki, þótt í því kunni stundum að berast skarpar skúrir, þrumur og eldingar, og jafnvel óhollir eyðimerkurvindar. Það er eina ráðið til að viðra okkur, láta baðstofulyktina rjúka af ættjarðarást okkar og öllum okkar tilfinningum og öllum okkar hugsjónum, eina ráðið til að fá nýtt loft ofan í lungun. Lokum okkur ekki inni.“
– Einar H. Kvaran.