Átak í söfnun og sáningu á birkifræi hófst haustið 2020. Með því var efnt til þjóðarátaks til að auka útbreiðslu birkis og er það í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda á þessu sviði og Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa, en nú stendur einmitt yfir áratugur endurheimtar vistkerfa og er það ákall um verndun og endurheimt vistkerfa um heim allan í þágu fólks og náttúru.
Átakið tókst vel og alls söfnuðust um 275 kg af fræi. Í fyrra safnaðist mest á Suður- og Vesturlandi en þar var með eindæmum gott fræár en frekar lélegt á Norður- og Austurlandi. Núna hefur þetta snúist við og á Norður- og Austurlandi er fræmagn á trjám með ágætum en mun lakara fyrir sunnan og vestan.
Skógræktin og Landgræðslan komu verkefninu af stað og óskuðu eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins undir nafninu „Söfnum og sáum birkifræi“.
Þessu ákalli svöruðu Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær. Skógræktarfélagið tók að sér að sjá um móttöku, varðveislu á öllu fræi af höfuðborgarsvæðinu sem safnaðist þá um haustið. Þetta voru tugmilljónir fræja sem fóru víða meðal annars í Selfjall í Kópavogi. Kópavogsbær kom mjög myndarlega inn í dreifinguna á Selfjalli og lagði þar sitt á vogaskálina. Að breiða út birkiskóglendi fellur einkar vel að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem er yfirstefna Kópavogsbæjar, bæði sem loftslagsverkefni og ekki síður vegna virkrar aðkomu almennings.
Almenningi var boðið að taka þátt í skipulögðum dögum í Selfjalli þar sem fræi var dreift undir leiðsögn starfsmanna Kópavogsbæjar og skógræktarfélagsins og mættu um 90 manns til að taka þátt í tveimur skipulögðum dögum og kom talsvert af börnum til að taka þátt með foreldrum sínum sem var mjög ánægjulegt. Þetta verkefni að safna og sá hentar börnum mjög vel. Þau skynja mikilvægi verkefnisins, eru fljót að tileinka sér vinnubrögðin, hafa gaman af þessu og vinna hratt. Vegna aðstæðna í samfélaginu var ákveðið að safna ekki frekar saman fólki heldur bíða vorsins og ljúka við að koma fræi niður. Í vor lauk sáningu á þeim fræjum sem í Selfjall fór og var það unnið af starfsfólki atvinnuátaks. Ef af líkum lætur þá verða þessi fræ með tíð og tíma stofn að góðri viðbót við birkiskóga landsins.
Enn á ný er blásið til sóknar. Fræ eru þroskuð og nú er góður tími til fyrir frætínslu og í kjölfarið sáningu. Sem fyrr verður hægt að fá fræbox í Bónus á starfsstöðvum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og víðar. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins birkiskogur.is