Nemendur leik- og grunnskóla í Kópavogi auk kennara og starfsfólks gengu gegn einelti í morgun. Alls tóku um átta þúsund þátt í göngu og dagskrá í skólahverfum bæjarins. Víða sóttu eldri börn leikskólabörn og svo var gengið saman á áfangastað en bæði almenningsgarðar og íþróttamannvirki voru nýtt til að hópast saman í söng og gleði.
Markmið göngu gegn einelti er að stuðla að jákvæðum samskiptum, vekja athygli á mikilvægi vináttu og virðingar og benda á að einelti er ofbeldi sem ekki verður liðið. Gangan eflir samstöðu og vináttu barna og hefur þannig jákvæð áhrif á skólastarf í bænum.
Þátttakendur voru afar ánægðir hvernig til tókst en þetta var í þriðja sinn sem gengið var gegn einelti í bænum.