Nýtt húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs er í byggingu en stefnt er að því að taka það í notkun í janúar 2020.
Byggingin, sem er viðbygging við Álfhólsskóla Digranesi, rúmar sjö kennslustofur og skrifstofur auk þess sem æfingaaðstaða hljómsveitarinnar mun taka stakkaskiptum með stækkun á hátíðarsal Álfhólsskóla. Eldhús skólans verður stækkað í sömu framkvæmd og lóð skólans endurnýjuð.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og Össur Geirsson skólastjóri Skólahljómsveitarinnar skoðuðu framkvæmdirnar á dögunum ásamt Margréti Birnu Sigurbjörnsdóttur aðstoðarskólastjóra hljómsveitarinnar, Sigrúnu Bjarnadóttur skólastjóra Álfhólsskóla og Stefáni L. Stefánssyni deildarstjóra framkvæmdadeildar Kópavogs.
„Nýtt húsnæði er langþráð bylting í aðstöðu hljómsveitarinnar sem hefur verið starfrækt frá árinu 1966,“ segir Össur Geirsson skólastjóri. Skólahljómsveit Kópavogs var stofnuð árið 1966.
Össur notaði tækifærið í heimsókninni og gaf bæjarstjóra tíma í trommuleik með því skilyrði að hann spilaði á opnunarhátíðinni þegar byggingin verður vígð. „Ég tek áskoruninni og mæti spenntur í trommutíma á nýju ári. “ segir Ármann Kr. Ólafsson. „Það verða sannarlega ánægjuleg tímamót þegar húsnæðið verður vígt.“
Framkvæmdir hófust í sumar við húsnæðið og er áætlað að húsið verði fullbyggt í desember 2019. Flotgólf ehf. sér um framkvæmdina.