Skólameistari MK: „Ekki hægt að draga lengur breytingar á skipulagi framhaldsskóla.“

Margrét Friðriksdóttir, skólameistari MK.
Margrét Friðriksdóttir, skólameistari MK.

Það er tómlegt um að litast í MK þessa dagana.´Á meðan verkfall framhaldsskólakennara stendur yfir hafa nokkrir nemendur nýtt sér bókasafnið til lesturs og svo hafa náms- og leshópar myndast sem hafa aðgang að kennslustofum. Margrét Friðriksdóttir, skólameistari, segir að á meðan samninganefndir eru að tala saman þá sé von til að samningar náist og hægt sé að hefja kennslu á ný. Hún vonar að það verði sem allra fyrst þar sem hver dagur er dýrmætur. Tuttugu og fimm kennsludagar voru eftir af önninni auk prófa þegar verkfallið hófst og nemendur þurfa svo sannarlega á allri aðstoð að halda á lokasprettinum.

„Ég vona að ríkissáttarsemjari fari að leggja fram málamiðlun til að leysa hnútinn. Á þessari stundu er ég bjartsýn á að verkfallið leysist svo hægt sé að hefja kennslu í vikunni, en svo getur allt breyst og farið í strand á augabragði. Ég er búin að fara í gegnum sex verkföll á mínum starfsferli svo ég er nú ýmsu vön. Verkfall er alltaf neyðarúrræði og ég veit að kennarar hafa áhyggjur af nemendum sínum“

Hvernig blasir þessi deila við þér?
„Þessi umræða um styttingu námstímans er ekki ný af nálinni. Þetta hefur lengi verið í umræðunni. Það eru 175 skóladagar á starfsárinu. Þar af eru 145 kennsludagar og 30 prófdagar. Það er ekki þörf fyrir svona marga prófdaga eftir að námsmat er orðið fjölbreyttara með símati og verkefnatengdum áföngum. Hægt er að nýta tímann betur og kenna í fleiri daga. Allir hafa skilning á að breytingar þurfa að eiga sér stað. Kennarar segja að ekki sé búið að útfæra þetta nógu vel og það má til sanns vegar færa en ég er hins vegar á því að hægt sé að stytta námið. Það eru ýmsar leiðir til þess eins og þegar hafa verið prófaðar í tveimur tilraunaskólum, í Kvennaskólanum og Fjölbrautaskólanum í Mosfellsbæ auk Menntaskóla Borgarfjarðar. Það er ekki mjög flókið að fara í þriggja ára nám án þess að draga úr gæðum námsins. Auk betri nýtingar á tímanum í desember og maí gera lögin ráð fyrir að skólaárið sé lengt um 5 daga. Jafnframt að grunnáfangar í íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði færist í grunnskólana. Þá megum við ekki gleyma því að sveigjanleiki áfangakerfisins verður áfram til staðar og nemendur geta tekið námið á sínum hraða. Kennarar kalla hinsvegar eftir skýrara módeli og að það sé ekki eðlilegt að um svona stóra breytingu sé samið í þeirri spennitreyju sem verkfall er. Það sé mikil vinna eftir við að útfæra slíka kerfisbreytingu.“

Er sanngjarnt að keyra á kerfisbreytingu á náminu um leið og samið er um kjör við kennara?
„Já, þessi mál geta vart dregist lengur. Skólarnir hafa verið að vinna að nýjum skólanámskrám út frá breyttu skipulagi framhaldsskóla og það er vart hægt að draga það lengur að taka þær í notkun. Framhaldsskólalögin sem samþykkt voru á Alþingi 12. júní 2008, fyrir hrun, gerðu ráð fyrir að nýtt skipulag framhaldsskólans yrði komið til framkvæmda árið 2011 en því var síðan frestað til 2015. Tíminn líður hratt og að mínu viti ekki hægt að draga þessar breytingar frekar. Kennarar hafa hins vegar ekki verið til umræðu um þessi atriði. Þeim var í fyrra boðin 4% launahækkun gegn því að þeir myndu skoða þessa kerfisbreytingu en þeir höfnuðu því. Núna er krafa kennara 17% launaleiðrétting, því þeir hafa dregist aftur úr öðrum samanburðarhópum. Þegar þeir eru búnir að fá þá leiðréttingu eru þeir tilbúnir að skoða kerfisbreytingar á námstíma og öðru. Ég vona svo sannarlega að úr þessu leysist og að kjör kennara verði bætt til muna þannig að friður ríki í skólunum.“

Hvað með nemendur í MK. Verður hægt að klára önnina og útskrifa nemendur?
„Við munum alltaf ljúka önninni með einhverjum hætti. Þetta er sjötta verkfallið á mínum starfsferli. Það síðasta var árið 2000 og leystist ekki fyrr en í janúar 2001 enda stóð það í átta vikur. Þá var kennt aukalega í tíu daga til að vinna það upp. Verkfall er yfirleitt leyst með hraðkennslu og síðan prófum og verkefnaskilum. Hver og einn skóli finnur lausn á því í samráði við kennara og nemendur en yfirleitt er gerður viðbótasamningur við kennara til að vinna upp tímatap nemenda. Nemendur MK munu því alltaf klára önnina með einhverjum hætti,“ segir Margrét Friðriksdóttir, skólameistari MK.

Skólameistarinn í tómri skólastofu. Margrét Friðriksdóttir, skólameistari MK, hefur upplifað sex verkföll framhaldsskólakennara á sínum starfsferli.
Skólameistarinn í tómri skólastofu. Margrét Friðriksdóttir, skólameistari MK, hefur upplifað sex verkföll framhaldsskólakennara á sínum starfsferli.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn