Vinnuskólinn í Kópavogi hélt nýverið upp á plokkdaginn með einstökum hætti. Nemendur og starfsmenn gengu um sín hverfi að plokka rusl. Þau söfnuðu saman rusli og endurvinnanlegum efnum og hreinsuðu til í sínu nánasta umhverfi.
Áherslan var lögð á að vekja nemendur til umhugsunar um samfélagslega ábyrgð og hagsmuni umhverfisins. Nemendur sáu um að flokka vel og vandlega það rusl sem þau plokkuðu til þess að hægt yrði að endurvinna ruslið sem best.
Í lok vinnudags sýndu nemendur árangurinn af plokkdeginum með því að skapa listaverk úr ruslinu. Þrír hópar unnu veglega vinninga fyrir mesta ruslið, frumlegasta listaverkið og flottasta listaverkið.