Sölusýningin Handverk og hönnun í Kópavogi var haldin í Safnaðarheimili Kópavogskirkju fyrir skömmu. Gróskan og fjölbreytin var mikil á því sem fyrir augu bar og gátu gestir kynnt sér listiðnað, hönnun og handverk frá tæplega tuttugu listamönnum sem annað hvort búa eða starfa í Kópavogi.
„Á sýningunni var úrval af vönduðum íslenskum hönnunarvörum og það er greinilegt að höfuðborgarbúar hafa áhuga á því sem fólk er að skapa í höndunum. Listamennirnir voru sjálfir á staðnum og í boði var fjölbreytt úrval af vönduðum íslenskum hönnunarvörum. Þetta er í annað sinn sem við stöndum fyrir sýningu sem þessari í tengslum við Aðventuhátíð Kópavogs og við ætlum að gera þetta að árlegum viðburði þannig að höfuðborgarbúar geta gengið að því vísu að geta fundið úrval af vandaðri íslenskri hönnunarvöru á einum stað,“ segir Áshildur Bragadóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs sem stóð fyrir og skipulagði viðburðinn.
Mikil eftirspurn er meðal hönnunar og handverkfólks í Kópavogi að taka þátt í sýningunni og komust færri að en vildu. „Í fyrra voru sýnendur örlítið fleiri en það var of þröngt á þingi í safnaðarheimilinu. Ég ákvað því að vera fækka sýnendum örlítið og velja inn þá sem tóku þátt og finnst mér hafa tekist vel til því fjölbreytnin var mikil. Við fengum um tvö þúsund gesti á sýninguna sem getur ekki annað en talist gott fyrir sýningu sem stendur í einn dag og erum ég og listamennirnir ótrúlega ánægð með viðtökurnar,“ segir Áshildur.