Rekstrarafgangur Kópavogsbæjar nam 161 milljón króna árið 2015. Þá lækkaði skuldahlutfall bæjarins í 162,5% á árinu, sem er ívið meiri lækkun en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Segir í tilkynningu frá bænum að þessi niðurstaða sé góð í ljósi mikilla launahækkana og stóraukins framlags til lífeyrisskuldbindinga í kjölfar kjarasamninga síðasta árs.
Ársreikningur Kópavogsbæjar fyrir árið 2015 verður lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs þriðjudaginn 26. apríl.
Fram kemur í ársreikningi að gert var ráð fyrir 398 milljón króna rekstrarafgangi samstæðunnar í fjárhagsáætlun fyrir árið 2015, en niðurstaðan varð 161 milljón króna afgangur. Þá varð rekstrarniðurstaða A-hluta neikvæð um 222 milljónir en en gert hafði verið ráð fyrir 147 milljón króna afgangi.
Laun og launatengd gjöld námu í heild alls 12.868 milljónum króna. Það er 5,5% prósent yfir því sem áætlað var. Framlag til lífeyrisskuldbindinga sveitarfélagsins voru tæplega 470 milljónir króna, sem er um 288 milljónir króna umfram áætlun.
Heildarfjöldi starfsmanna hjá sveitarfélaginu var 2.933 í árslok 2015 en meðal stöðugildi á árinu voru 2034.
Skuldahlutfall A-hluta er nú tæp 142% en það komst undir 150% í fyrra. Samkvæmt aðlögunaráætlun verður skuldahlufall samstæðu komið undir 150% viðmið árið 2018. Skuldahlutfall samstæðu lækkaði í 162,5% úr 175,2% en það var 242% þegar hæst var árið 2010.
Tekjur sveitarfélagsins námu rúmlega 24,6 milljörðum en gert hafði verið ráð fyrir tæplega 24,2 milljörðum í tekjum fyrir A og B-hluta. Eigið fé nam í árslok 2015 tæplega 16 milljörðum króna.
„Hjá Kópavogsbæ eins og öðrum sveitarfélögum hafa kjarasamningar síðasta árs verið miklu þyngri fyrir reksturinn en við gerðum ráð fyrir. Það jákvæða er að okkur gengur vel að lækka skuldahlutfall bæjarins og að ársreikningurinn sýnir jákvæða afkomu,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar.
Íbúar Kópavogs voru þann 1. desember 34.105 og fjölgaði um 1.010 frá fyrra ári eða um 3,1%.