Tímaspursmál er þangað til að stórslys verði við Sæbólsbraut, að mati íbúa í hverfinu. Gatan er vinsæl leið hjólreiðamanna sem fara yfir Kópavogshálsinn til Reykjavíkur. Þeir renna sér yfir gatnamótin við Kársnesbraut og niður Sæbólsbrautina á miklum hraða.
„Það bráðvantar örstuttan hjólastíg hérna sem myndi breyta miklu,“ segir Björn Thoroddsen, gítarleikari og íbúi við Sæbólsbraut. „Ég var næstum því búinn að keyra niður einn hjólreiðarmann á dögunum og oft hefur legið við stórslysi því flestir eru að flýta sér á morgnanna,“ segir Björn og bendir á stað þar sem hjólastígurinn gæti komið og tengst þá við göngu- og hjólastíg sem liggur meðfram Kársnesinu.