Þungarokkssveitin Sólstafir flytur eigin tónlist við kvikmyndina Hrafninn flýgur eftir Hrafn Gunnlaugsson á kvikmyndatónleikum í Salnum þann 1. október. Flutningurinn er hluti af RIFF kvikmyndahátíðinni sem í ár fer að hluta til fram í Kópavogi.
Hrafninn flýgur sem heldur upp á 30 ára afmæli í ár hefur fyrir löngu öðlast sérstakan sess í íslenskri kvikmyndasögu. Myndin, sem gerist á víkingatímum, var sýnd við miklar vinsældir hér á landi og náði líka töluverðum vinsældum erlendis, einkum á Norðurlöndum. Á sýningunni í Salnum gefst áhorfendum kostur á að skynja sögu og frásögn leikstjórans í gegnum tónlist Sólstafa í stað upprunalegs hljóðheims myndarinnar.
Lögin sem leikin verða við Hrafninn flýgur verða af fimmtu plötu Sólstafa, Óttu, sem kemur út í lok ágúst, í bland við eldri tónsmíðar eftir því sem passar við víkingasögu Hrafns.
Sólstafir byrjuðu líf sitt í bílskúr í Breiðholtinu árið 1995 og hafa síðan þá sannað sig sem kraftmikil og eftirminnileg tónleikahljómsveit, með flutningi sínum hér heima og utan landssteinanna.
Hljómsveitina skipa: Aðalbjörn Tryggvason, söngur og gítar, Guðmundur Óli Pálmason, trommur
Svavar Austmann, bassi og Sæþór Maríus Sæþórsson, gítar.
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, Riff, verður að hluta til haldin í Kópavogi í ár. Boðið verður upp á margvíslega dagskrá í bænum meðal annars sundbíó og málþing rithöfunda og leikstjóra. Viðburðirnir verða nánar kynntir síðar.